02.09.1919
Efri deild: 46. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1781 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

126. mál, löggiltar reglugerðir um eyðing refa o. fl.

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Eins og sjá má af nál., leggur nefndin til, að frv. verði samþykt. Í frv. eru tekin upp gömlu lögin og því bætt við, að skýrslur um eyðing refa og kostnað, sem af því leiðir, skuli árlega birtar í landshagsskýrslunum. Nú liggur eftirlit með refaeyðingu undir hreppsnefndir og sýslunefndir; þær hafa allar skýrslur um þau efni. Nefndin lítur svo á, að heppilegt geti verið, að skýrslur þessar komi allar saman á einn stað, því þá fyrst eru líkur til, að eitthvað gott geti af þeim hlotist, og þá fyrst hægt að fá yfirlit yfir refaveiðar á öllu landinu. Sú viðbót við lögin felst einnig í frv., að sektir fyrir brot á reglugerðunum eru hækkaðar að mun. Núgildandi lög eru frá 1890, og reglugerðir sýslunefnda því orðnar gamlar og úreltar, sumstaðar jafnvel svo, að hreppsnefndum er ógerningur að fara eftir þeim. Er þá illa farið, þegar lögbrotin eru orðin nauðsynleg. Tilgangur laga þessara er því aðallega sá, að ýta undir sýslunefndir með að endurskoða reglugerðirnar.