18.08.1919
Efri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2020 í B-deild Alþingistíðinda. (2145)

118. mál, eftirlits- og fóðurbirgðarfélag

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg varð til að flytja þetta frv., en þar eð jeg var ekki viðstaddur 1. umr., hefi jeg ekki tekið til máls fyr. Má það teljast óvanalegt, er um ekki ómerkara mál er að ræða en þetta.

Jeg þakka hv. nefnd fyrir, hvað hún hefir farið liprum höndum um frv., og meðmæli hennar með því. Við brtt. hefi jeg ekkert að athuga. Frv. þetta er komið fram fyrir áskorun Búnaðarþings Íslands, og var mjer þar falið á hendur að koma málinu inn á hv. Alþingi. Á Búnaðarþinginu voru bornar fram þær ástæður, að fóðurbirgðafjelög væru víða þegar mynduð og áhugi fyrir þeim alment vaknaður; aftur á móti væri víða mikil mótspyrna gegn forðagæslulögunum, og vildu menn eigi kannast við nytsemi þeirra. Alstaðar þar, sem jeg þekki til og lögunum hefir verið hlýtt, hafa þessi forðagæslulög gert mikið gagn, en jeg veit til, að í mörgum sveitum, og jafnvel heilum landsfjórðungum, hefir verið mikil mótspyrna gegn þeim, og þar hafa þau vitanlega gert lítið sem ekkert gagn.

Í nefndarálitinu er haldið fram þeirri skoðun, að svona lög, sem kæmu ofan frá, gætu aldrei haft eins mikil áhrif og samskonar lög, er kæmu frá almenningi sjálfum. Fyrst og fremst hefir eigi verið sýnt fram á, að svo sje, og í öðru lagi hygg jeg, að lengi megi bíða eftir, að hvert sveitarfjelag setji sjer lög um þetta efni, og ætla mætti þá líka, að sú lagasmíði verði tæplega eins vel úr garði gerð.

Jeg hefi að vísu ekki trú á, að þessi fóðurbirgðafjelög verði sjerlega mörg. Jeg hygg, að menn muni trjenast upp á fyrirhöfninni fyrir þeim, eins og víða hefir sýnt sig með slíkar tilraunir. En jeg vil samt eigi vera að koma með neinar hrakspár, og síst af öllu leggja stein í götu þessa fjelagsskapar, heldur styrkja hann eftir því sem föng eru á.

Í þeim fjelögum, sem stofnuð hafa verið, hafa framkvæmdirnar verið góðar og fjelagsskapurinn fastur. Það hefir verið fyrirfram ákveðið, hvað hver maður skyldi leggja til, miðað við skepnufjölda að hausti, eða þá fastákveðið árstillag. Þessum litlu tekjum hefir svo verið varið til sameiginlegra fóðurkaupa. Fjelagsmenn hafa yfirleitt sætt betri kjörum en aðrir, einkum hvað snertir innkaup, og kostnaðurinn því orðið minni, er alt var haft með samvinnusniði. Slíkur fjelagsskapur getur því gert ómetanlegt gagn, en það þarf sjerlega ósjerhlífna og ósjerdrægna menn til að standa fyrir honum.

Þótt markmið frv. sje að gera forðagæslulögin óþörf, duldist Búnaðarfjelaginu ekki, að ekki tjáði að nema þau lög úr gildi þegar í stað; en sú skoðun mun hafa komið fram í hv. Nd að undanförnu.

Eins og menn vita, er eigi þörf á að semja lög um, að einstök sveitarfjelög megi mynda svona fjelagsskap með sjer, en það vill auðvitað verða svo hjer, sem með annan fjelagsskap, að altaf verða einhverjir, sem þverskallast, og það er til þess að geta kúgað þennan minni hluta til að gera skyldu sína, að menn biðja Alþingi liðsinnis.

Búast má við, ef þessi fjelagsskapur verður almennur, að hann eigi geti haldið þroska sínum og viðgangi, nema hann fái fje einhversstaðar að, því eigi má taka sem mælikvarða, þó hann gangi vel í bili hjá einstaka hreppum, þar sem sjerstaklega ósjerhlífnir menn stjórna honum. Í nefndaráliti Búnaðarfjelagsins er vikið að því, hvort eigi mætti nota Bjargráðasjóðina í þessum tilgangi. Virðist mjer eigi hægt að verja honum betur en einmitt til að styrkja slík fjelög. Að vísu yrði þá að breyta lögunum, því hann er eigi ætlaður til annars en þegar um veruleg harðindi er að ræða. En jeg verð að játa, að jeg með aldrinum hefi orðið langtum bjartsýnni en jeg var á yngri árum. Jeg bjóst þá við, að það gætu dunið yfir landið þau harðindi, að sjóðsins þyrfti nauðsynlega með, en nú virðist mjer, eftir öllum veðurmerkjum að dæma, að við þurfum ekki að deyja úr hungri, ef við höfum vakandi auga á hlutunum. Mjer finst árið 1918 hafa sannað, að við stöndum öðruvísi að vígi en fyrir svo sem 100 árum. Á því sama ári fengum við einhvern hinn mesta grasbrest, sem komið hefir í manna minnum, eldgos og öskufall á miklum kafla landsins, veturinn 1917–18 var með afbrigðum harður, og þar við bættist sú mesta dýrtíð, sem nokkurn tíma hefir komið fyrir í heiminum. Mjer finst þetta sanna, að við getum, og eigum framvegis að geta bjargað okkur; við eigum að hafa fje til umráða, svo við getum afstýrt vandræðunum, en ekki að safna stórfje til að nota þegar í vandræðin er komið. Jeg hygg því, að við ættum sem fyrst að breyta lögum Bjargráðasjóðsins svo, að brunnurinn yrði byrgður áður barnið er dottið ofan í.