18.08.1919
Efri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2023 í B-deild Alþingistíðinda. (2146)

118. mál, eftirlits- og fóðurbirgðarfélag

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg vil styðja þetta frv., og það af ýmsum ástæðum. Reynslan hefir sýnt það, að fóðurbirgðafjelögin hafa gert töluvert gagn. Hins vegar hefir hún líka sýnt það, að jafnvel þó áhugi manna sje að vakna á þessum fjelagsskap, hefir ekki verið unt að fá alla fjáreigendur í sveitinni til að ganga í samtökin, eða þess eru að minsta kosti dæmi úr minni sveit. Reynslan hefir sömuleiðis sýnt, að hjá þeim, sem í fjelögum þessum eru, hafa fóðurbirgðirnar frekar svarað til áhafnarinnar en annarsstaðar, og má því eflaust gera ráð fyrir því, að þau geri ekki skaða, heldur beint gagn í flestum tilfellum. En því miður verða þau sjálfsagt ekki alstaðar framkvæmd. En það, sem oftast tálmar framkvæmdunum, er að flestra dómi skortur góðra forgöngumanna.

Í nál. er talað um það, að framkvæmdarvald vanti í þessum málum. Í frv. er þó gert ráð fyrir ekki ósmáu framkvæmdaaðhaldi, þar sem gert er ráð fyrir að neyða þriðjung fundar- eða sveitarmanna til þess að vera með í fjelögunum, hvort sem þeir vilja eða vilja ekki — að eins ef hinum tveimur þriðjungunum þóknast svo. Þetta er vissulega aðhald, og virðist vera brot á því frelsi, sem menn þykjast hafa, jafnvel þó fordæmi sje að slíku áður í forðagæslulögunum. Hjer er ekki harðara að gengið en t. d. í samþykt um veiðar.

Annað aðhaldið, sem gert er ráð fyrir, felst í 5. gr. En um það þarf ekki að fjölyrða frekar, því öll nánari ákvæði, sem það atriði snerta, verða sjálfsagt tekin fram í því ,,formi“, sem Búnaðarfjelaginu er ætlað að semja.

Að því er önnur atriði frv. snertir, vil jeg sjerstaklega minnast á ákvæðið um atkvæðisrjettinn, og vil jeg skjóta því til hv. nefndar. hvort ekki mætti breyta orðalagi þessarar greinar, sem um það ræðir. Það virðist ekki vera sanngirni í því, að binda þennan atkvæðisrjett við sömu skilyrði og atkvæðisrjett til þings eða sveitarstjórna — enda munu þess mörg dæmi, að menn undir 25 ára aldri eigi allmikinn búpening — að minsta kosti eru þess dæmi í minni sveit.

Að því er snertir 8. gr., hygg jeg það mjög vafasamt, hvort rjett sje að veita undanþáguna frá ákvæðum forðagæslulaganna frá 10. nóv. 1913, því eftirlitsmenn ættu vel að geta ferðast um eftir sem áður, og í starfi þeirra væri fjelagsstjórnunum mikill styrkur.