13.09.1919
Neðri deild: 63. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2027 í B-deild Alþingistíðinda. (2157)

118. mál, eftirlits- og fóðurbirgðarfélag

Frsm. (Sigurður Sigurðsson):

Þó að margt mætti um frv. þetta segja, þá ætla jeg ekki að fara langt út í þá sálma. Það er komið frá Ed. og flutt þar að tilhlutun Búnaðarfjelagsins og Búnaðarþingsins, sem haldið var í júlí í sumar. Tilgangurinn með frv. er að styðja að því, að fóðurbirgðafjelög geti komist á og fengið stuðning í samþyktum þeim, sem með frv. er heimilað að gera.

Nefndin hefir leyft sjer að gera örfáar breytingar við frv., en þær eru að eins orðabreytingar, sem miða að því að laga á því málið, en raska hins vegar ekki efni þess.

Bent skal á það, að í frv. er ákvæði um það, að þar sem kann að verða stofnað til fóðurbirgðafjelagsskapar, þar, eða í þeim sveitum, þurfi ekki að framfylgja ákvæðum forðagæslulaganna.

Þetta hygg jeg að muni mæla með þessu frv. í augum þeirra, sem forðagæslulögin áður nefndu hafa verið þyrnir í augum. Jeg hygg, að þetta mál sje vel þess vert, að því verði gaumur gefinn, og vænti jeg, að frv. verði samþykt.