11.09.1919
Efri deild: 54. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2153 í B-deild Alþingistíðinda. (2380)

145. mál, aukatekjur landssjóðs

Frsm. (Magnús Torfason):

Frv. þetta hefir verið borið fram samkvæmt því, sem áður hefir verið rætt um hjer í hv. deild, að rjettara væri að hækka þá skatta, sem þegar væru á lagðir, en að búa til nýja skatta.

Það er töluvert erfitt verk að breyta aukatekjulögunum, svo vel sje, en mjer fanst vel mega taka þennan lið sjerstaklega. Þessi lög eru að mestu leyti samskonar og vitagjaldslögin, sem þegar hafa verið hækkuð.

Það, sem ber á milli, er ákvæðið um skip undir 30 smálestum, og stafar það af jafnrjettinu í sambandslögunum

Tekjuaukinn við þessi lög verður sennilega hjer um bil sá sami og við vitagjaldslögin. Gjald þetta var upprunalega eins og vitagjald, 25 aurar af smálest.

Vitagjaldið hefir síðan árið 1917 verið hækkað úr 40 aurum upp í 1 krónu, eða um 150%, en um 300% frá því, sem það var upprunalega. Hjer er því að eins farið fram á sömu hækkun.

Undir þessi lög falla ekki útlend fiskiskip, svo jeg býst ekki við, að mikill munur verði á tekjuaukanum af þessum lögum og vitagjaldslögunum.

Að lokum ætla jeg að leggja til, að hv. deild greiði atkvæði með brtt. á þgskj. 758.