19.09.1919
Neðri deild: 68. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2155 í B-deild Alþingistíðinda. (2388)

145. mál, aukatekjur landssjóðs

Magnús Guðmundsson:

Háttv. Ed. hefir ætlast til, að þetta frv. kæmi í stað frv. um lestagjald af skipum. Þegar það frv. var hjer til 1. umr., þótti ekki taka því að vísa því til nefndar, en þess hefði þó verið full þörf, því undarlegt er, hve mikill munur er gerður á skipum, eftir því, hvaðan þau eru. Frönsk skip borga t. d. 10 aura fyrir hverja smálest, þegar þau koma til landsins, og síðan 5 aura á smálest í hvert skifti og þau leita hafnar. Þetta ákvæði, sem sett var 1894, hefir haldist óbreytt. Það náði þá einnig til danskra skipa, en var breytt 1911, og svo aftur nú, og er það orðið 1 kr. á smálest. Þetta er ósanngjarnt. Að vísu borga hin oftar, en þó eigi svo oft, að jöfnuður verði.

Brtt. á þgskj. 887 er því komin fram til samræmis og nær þá seinasta ákvæðið til allra útlendra skipa, danskra jafnt og annara. En auk þess er ætlast til, að 10 aura gjaldið, þegar skip koma, og 5 aura, í hvert skifti og þau leita hafnar, haldist. Fullkomið samræmi fæst ekki, því skip leita eðlilega misoft hafnar.

Þetta gjald nær aðallega til síldveiðiskipa og enskra botnvörpunga, en hitt ákvæðið, um dönsku skipin, hefir aðallega bitnað á Færeyingum. Við ættum síst að reynast þeim örðugir, og eiga þeir það ekki skilið.

Till. er sjálfsögð, og jeg er hissa á háttv. Ed., að snúast eins í málinu og hún hefir gert. Hún hefir óttast að þurfa að breyta lögunum frá 1894, en þess þarf ekki, eins og augsýnilegt er, þegar þessi leið er farin.

Fyrri brtt. mín er um að miða við 12 smálesta skip, í stað 30. Um þetta er það að segja, að áður var miðað við brúttósmálestatölu, en nú nettó, og er þá rjett að færa þetta niður, því það eru aðrar reglur, sem gilda fyrir skip undir og yfir 12 smálestir.

Jeg benti á það í sambandi við lestagjaldsfrv., hve lítill lausafjárskattur væri á þessum skipum, og jeg vona, að deildin verði ekki á móti því, þegar gjaldið er helmingi lægra en gert er ráð fyrir í því frv.