25.07.1919
Neðri deild: 16. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2366 í B-deild Alþingistíðinda. (2662)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Benedikt Sveinsson:

Það hefir komið fram sem almenn skoðun hjer í deildinni, að landið eigi að helga sjer full yfirráð yfir Sogsfossunum, hvað sem líði deilunni um eignarrjett vatns. Á þetta hefir verið lögð áhersla bæði af hv. þm. Dala. (B. J.), sem telja má formælanda meiri hluta fossanefndarinnar, og hv. 1. þm. S.-M. (Sv Ó.), sem talar af hálfu minni hluta fossanefndar. Einnig hefi jeg lesið allskorinorða grein í „Tímanum“, þar sem mörg rök eru leidd að því, að landið þurfi að fá umráð yfir Soginu. Það er því hreinasta undantekning, er hv. þm. S.-Þ. (P. J.) virðist vilja leggja á móti þessu máli. Var hann að reyna að leiða rök að því, að þetta gæti verið bæði skaðlegt, heimskulegt og óþarft. Sami hv. þm. (P. J.) var að reyna að vjefengja skýrslu þá, sem hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) las hjer upp, um óskir bæjarstjórnar Reykjavíkur, að fá landsstjórnina til þess að taka Sogsfossana eignarnámi, og sagði, að ekki hefði það komið fram, hvað á eftir hefði farið í því máli. En það breytir engu, hvað síðar hefir farið fram í því máli, nema síður sje. Að vísu er það rjett, að bæjarstjórn Reykjavíkur hjelt ekki til streitu ósk sinni um, að landið tæki Sogsfossana, og var það af því, að þá átti hún í samningum við fossafjelagið „Ísland“, og hjelt hún um tíma, að hún mundi þannig geta fengið ódýrari orku en með því að koma þar sjálf upp stöð. Bæjarstjórnin hafði keypt rjettindi við Sogið fyrir 30 þúsund krónur, til þess að tryggja sjer aðstöðu þar, og sýnir það best, hvort það er hjegóminn einber, að hún hafi ætlað að fá rafafl úr Soginu handa Reykjavík — Síðar varð hlykkur á þessu, og var þá aftur farið að braska í því að setja stöð við Elliðaárnar eða í Grafarvogi — til bráðabirgða. En annars er óþarft að fara að rekja alla þá krákustíga, sem bæjarstjórnin hefir fetað í þessu máli. Hv. þm. (P. J.) hjelt því fram, að óþarft væri að ausa fje út fyrir það, sem landið ef til vill ætti. En það hefir aldrei verið ætlun vor flm., því að auðvitað kaupir landið það eitt, sem það kemst ekki hjá. Á hinn bóginn vildi hann gera mikið úr, að dýrt yrði fyrir landið að kaupa fossana, ef það þyrfti þess á annað borð, og benti hann á, hversu dýr sá hlutinn hefði orðið Reykjavík, er hún hefði náð tangarhaldi á. Jeg fæ ekki annað skilið en full hliðsjón yrði höfð af því, hversu dýrt þeir keyptu vatnsorkuna, er nú þykjast eiga hana. En þó að hv. þm. (P. J.) sje talinn mikill fjármálagarpur, þá held jeg, að honum skjátlist, er hann hyggur, að ódýrara muni verða að kaupa síðar, og er mjer nær að kalla það ráð hans hreinasta Lokaráð. Verðið á Soginu nú má heita gjafverð, svo mikið gjafverð, að það er hægðarleikur fyrir einstaklinga að kaupa það, en ef hikað verður nú, þá er það að eins til þess, að verðið hækkar.

Þá spurði hv. þm. (P. J.), hvort Reykjavík ætlaði sjer að verða hluttakandi í fyrirtækinu, ef landið rjeðist í það. Jeg get svarað því, að ef nú yrði hikað, mundi Reykjavíkurbær alls ekki verða með, því að þegar hann hefir ráðist í að byggja einhverja stundarstöð, og eyða þar til öllu lánstrausti sínu og meira til, þá mun hann láta þar við sitja þangað til í síðustu lög. En á hinn bóginn er það nokkurn veginn hárvíst, að svo fremi, sem landið ræðst í að beisla Sogið — ef til vill, að meira eða minna leyti í fjelagi við aðra — þá er auðgert að fá meiri hluta bæjarstjórnar til þess að leggja í fyrirtækið þær 2 miljónir, sem bærinn hefir nú handbærar.

Þar sem svo má heita, að það sje einróma álit hv. þm., að sjálfsagt sje að ná valdi yfir Sogsfossunum nú þegar, þá skil jeg ekki annað en að till nái fram að ganga. En það, sem meðal annars ýtti undir oss flm. að bera þessa till. fram, er það, að jafnvel í frv. hv. þm. Dala. (B. J.) er gert ráð fyrir, að ekki sje úr vegi að leigja einhverju fjelagi fossana, en vjer viljum ekki vera að bolast í þessu máli, heldur ganga hreint til verks og fá það trygt nú þegar, að íslensku þjóðinni gangi ekki úr greipum það vatnsfallið, sem auðveldast er viðfangs og best í sveit komið, — mestur dýrgripurinn —, og ef menn brestur dug og einurð til þessa nú, þá uggir mig, að ekki verði hægra um þau vik seinna, þegar auðfjelögin erlendu hafa enn betur búið í haginn og trygt sjer fleiri fylgifiska, utan þings og innan, heldur en enn þá er orðið.