17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2369 í B-deild Alþingistíðinda. (2666)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Frsm. meiri hl. (Gísli Sveinsson):

Þessari till. var vísað til fossanefndar þessarar hv. deildar, og hefir meiri hluti hennar ekki viljað bera hana fram, eins og sjest á nál. á þgskj. 792. Það er minni hlutinn, tveir nefndarmenn, er sæti eiga í hv. Nd., sem nú bera hana fram, eða skila henni frá nefndinni, og leggja til, að hún verði samþykt.

Síðan till. sú, er meiri hlutinn bar fram í stað þessarar till., var feld hjer í deildinni í gær, hefir nefndin ekki ákveðið neitt um þessa, og býst jeg við, eftir fundi hennar í morgun að dæma, að hún verði skift um till., verði sumir með, og sumir móti.

Þessi till. er, frá mínu sjónarmiði, óaðgengileg að formi til, þar sem hún byggir að fullu og öllu á því, að Alþingi úrskurði um það formsatriði, sem meiri hlutinn vildi ekki úrskurða um. Í henni segir, að lögnám skuli fram fara á Sogsfossunum, samkvæmt fossalögum þeim, er nú gilda og eftir skýringu háttv. minni hluta milliþinganefndar byggja á þeim skilningi, að afgert sje að fullu og öllu, að eignarráð og eignarrjettur vatnsafls sje hjá einstökum mönnum, en ekki ríkinu.

Því var að vísu neitað af hv. flutningsmönnum þessarar till., þegar þeir voru spurðir, hvort í þessari tilvitnun lægi, að þeir skæru þar með úr þrætuspurningunni. Því var svarað, að till., sem þeir bæru fram, væri í þeirri veru hlutlaus.

En það var þvert á móti þessum orðum um till., sem fram kom í ræðu hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) í gær. Það kom þá fram, að hv. 1. þm. Reykv. meinar alls ekki, að hún sje hlutlaus, heldur að hún, út af fyrir sig, sje það, er nærri sker úr þrætuatriðinu. Það er sú formlega hlið till., sem jeg get ekki fallist á, og greiði jeg því atkvæði á móti henni eins og hún er orðuð.

Jeg býst nú við, að hæstv. forsætisráðh. (J. M.) hafi nú ekkert á móti, að þetta mál sje samþykt í tillöguformi, þótt hann hefði það í gær, því að með till. þessari mun að skoðun hans vera framfylgt þeim skilningi íslenskra laga, að ótvíræður eignarrjettur vatnsorku sje hjá einstökum mönnum, en ekki ríkinu. Því mun hann ekki á móti tillöguforminu hjer, fremur en lagaformi.

En í gær lýsti hæstv. ráðh. (J. M.) yfir því, að hann gæti ekki álitið, að nokkur stjórn gæti framfylgt skipun Alþingis, ef stjórnin hefði sjálf ,.skoðun“ í málinu. Þessi orð studdust við það, að hann hafði þegar myndað sjer skoðun um málið á ákveðinn veg. En það var ljóslega hrakið í gær og sýnt fram á, að slík mótbára nær ekki neinni átt. Hver stjórn er skyldug til að framfylgja skipunum Alþingis, t. d. um lögsókn til reynslu um rjettaratriði, hvað sem „privat“ skoðunum hennar líður, meðan hún er stjórn ríkisins, og hver svo sem niðurstaðan verður. Og ljeti hún slíkt undir höfuð leggjast, hlyti hún að verða ábyrg gerða sinna samkvæmt ráðherraábyrgðarlögunum, fyrir trassaskap eða vanrækslu.

Sem sagt koma orð þessarar till. vel heim við skoðun hæstv. forsætisráðh. (J. M.) á einu atriði. Býst jeg því við, að hann taki fegins hendi við og sjái ekkert því til fyrirstöðu að framkvæma hana, þótt það reyndar komi þvert í bága við skoðun þá, sem hann hafði í gær.

Jeg taldi rjett, ásamt meiri hluta fossanefndar, að till. sú, sem meiri hlutinn bar fram, til þess að fá skorið úr rjettaratriðinu, hjeldi sjer við þetta ákveðna vatnsfall, Sogið. En þegar um það er að ræða alveg út af fyrir sig og laust við þessa tilraun til þess að fá leyst úr rjettaróvissunni, hvort landið eigi nú ráð á að lögnema vatnsföll landsins, og borgi til þess ærna fje, ef þingið hefir aðhylst þá skoðun, að einstaklingarnir eigi vatnið, og geti krafist bóta samkvæmt því verðlagi, sem er á vatnsafli á hverjum tíma, þá get jeg ekki verið með því, að stjórnin fyrir ríkisins hönd ráðist í útgjöld þessi; þar sem heldur ekki verður sjeð, að það sje neitt aðkallandi.

Það getur vel verið, að nokkrum mönnum þyki það hentugt fyrir ýms bæjarfjelög, að ríkið hafi þetta á hendi, svo að bæirnir geti gengið að því sem sínu, hve nær sem þeim þóknast. En það verður ekki álitið ríkinu skylt, þótt einhverjum bæjum sje það hentugt.

Þess er líka að geta sjerstaklega í sambandi við þessa sölu Sogsfossanna, að bæjarstjórn Reykjavíkur hefir þegar tekið annað vatnsfall, Elliðaárnar, til notkunar í þessu skyni. Hefir verið unnið að því í sumar að taka þær til hagnýtingar í vatnsorkuþarfir bæjarins.

Það er líka alls ekki mín skoðun, að ríkið eigi, undir öllum kringumstæðum, að hafa sem flest mannvirki með höndum, eða standa fyrir sem flestum fyrirtækjum. Reynslan hefir sýnt, að hjá ekki meira þroskaðri þjóð, með óþroskaðri stjórn, fer slíkt meira og minna í handaskolum. Og í stað þess, sem búast mætti við gróða, er við búið, að niðurstaðan verði einlæg skakkaföll, einlægur halli.

Þótt landið tæki nú Sogið, þá er sýnt, að af því myndi leiða afarmikinn kostnað. Og með till. þessari er rent alveg blint í sjóinn um það, hvar slíkt mundi lenda.

Þá er enn annað, sem útilokar till. þessa á þessu stigi málsins. Öllum kemur saman um, að nú skuli setja mjög strangar reglur fyrir notkun vatnsafls í landinu. Er því till. óþörf, því að ef slíkar skorður eru reistar, þá er eins trygt að veita sjerleyfi til virkjunar, og landsstjórnin hefir þá í hendi sjer að taka það gjald af rekstrinum, sem hún vill og lögleyft er, og getur þannig tekið á þurru landi þann gróða, er henni þóknast. Kemur því ekki til mála, að ríkið ráðist í neitt þesskonar fyr en sýnt er, hvernig sjerleyfislöggjöfin verður. Ekkert kallar að, hvað Reykjavík sjerstaklega snertir. Það er upplýst, að mikill fjöldi bæjarbúa hefir komið upp hjá sjer rafvjelum, reknum með mótorum, til raflýsingar, og enn fremur er tekið að vinna að virkjun Elliðaánna, eins og jeg gat um.

Af þessum ástæðum einnig greiði jeg atkvæði á móti till., er hjer liggur fyrir.