17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2380 í B-deild Alþingistíðinda. (2670)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að vatnsaflið er mikið hjer í landinu og fossar eru margir. En verðmæti fossanna er misjafnt eftir því hvar þeir liggja og hversu hægt er að „regulera“ þá. Jeg hygg, að allir sjeu á sama máli um það, að Sogsfossarnir sjeu best fallnir til virkjunar af öllum fossum hjer á landi. Kemur það af því, að þeir liggja í frjósömustu hjeruðum landsins — í hjarta landsins — og sömuleiðis af því, að þá er sjerlega gott að „regulera“. Þar sen nú allir eru á sama máli um þetta, þá sýnist bein afleiðing af því vera sú, að landið eigi að tryggja sjer þá, hvernig sem fer um aðra fossa. Till., sem hjer um ræðir, fer fram á þetta, og nefndarálit minni hluta samvinnunefndar í fossamálinu sömuleiðis; þar er tekið fram, að ef ekki náist samningar, þá skuli taka fossana eignarnámi. Nú kann sumum að þykja hart gengið að fossafjelagiuu Íslandi, þar sem það hefir sótt um leyfi til að virkja þessa fossa og hefir náð tangarhaldi á þeim. En þar sem nú allir eru á því, að landið eigi að ná í fossana, finst mjer það ekki sæmandi fyrir Alþingi að svara ekki fjelagi þessu nú þegar og segja því hreinlega, að það muni ekki fá þessa fossa til virkjunar. Sjálfsagt þarf að verja fje úr ríkissjóði til þess að ná rjetti á fossunum, en jeg býst ekki við, að nokkur vafi leiki á um það, að þessu fje sje ekki illa varið. Trú manna á kraft fossanna er mikil. og jafnvel þótt einhver uppgötvun hafi verið gerð úti í löndum, sem muni gera það miður arðvænlegt að starfrækja fossana í vissar áttir, þá er það víst, að slíkt afl sem þetta mun æfinlega verða í afskaplega háu verði.

Hitt er líka auðvitað, að því lengur sem landið dregur að taka Sogið, því dýrara verður það. Það er sjálfsagt að samþykkja þessa till. og ná sem fyrst umráðarjettinum landinu til handa.

Kosningar standa fyrir dyrum, og er þetta mál þannig lagað, að kjósendur geta ekki látið það afskiftalaust, þeir munu heldur ekki gera það, og má búast við, að þeir veiti þeim hv. þm. frí, sem á móti eru, því þetta er stórmál og mun að miklu leyti ráða atkv. manna.

Ef það er rjett, sem sagt er, að þessi foss eða þetta vatnsfall sje lykill að framtíð landsins, þá er óverjandi, að annar geymi þann lykil en landið sjálft; það getur ekki staðið sig við að fela öðrum lykilinn.

Jeg þykist ekki þurfa að fjölyrða um þetta meira: jeg vona fastlega, að till. verði samþykt.