20.09.1919
Neðri deild: 69. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2417 í B-deild Alþingistíðinda. (2686)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Fjármálaráðherra (S. E.):

Því var beint að stjórninni, hvort nægileg heimild væri fyrir hendi til þess að taka að láni fje með virkjunina fyrir augum, og enn fremur hvort heimildin væri nægileg til þess að taka Sogið. Að því er til fyrra atriðisins kemur, vil jeg benda á, að samskonar ákvæði er í lögununi um áveitu á Flóann, og hefir það verið skilið sem nægileg trygging fyrir að taka lánið. En annars hefi jeg hugsað mjer að koma með brtt. þar sem svo skýrt er að orði kveðið, að allur vafi hverfi. — Að því er snertir síðara atriðið, þá hefir hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) farið inn á það og tekið það fram, sem jeg vildi sagt hafa. Það verður að vera nægilegt, og er það, að almenningsheill krefur þessa, og hvað mannvirkin snertir er það róg, að það hefir verið ákveðið að reisa þau.

Um það atriði, hvað stjórnin taki mikið, þá verður hún að ákveða það í hvert skifti. Sýnist mjer, að sá skilningur á lögunum sje ekki vafasamur, að landið geti tekið Sogið.

Að því er snertir brtt. hv. þm. Dala. (B. J.), þá vil jeg lýsa því yfir, að jeg er ekki á móti henni.

Þá vil jeg enn hvetja menn til að draga ekki fossafjelagið „Ísland“ á svarinu viðvíkjandi beiðni þess í fyrra. Er það hreinast að segja því afdráttarlaust, að það sje allra vilji, að landið taki Sogið, svo það skuli ekki gera sjer neina von um að fá það til virkjunar. Þetta hygg jeg vera alveg óhætt, því jeg veit, að menn úti um alt endilangt Ísland vænta þess og vona, að landið nái fullum tökum á Soginu.

Jeg skal ekki þreyta hv. deild á langri ræðu. Heimildin fyrir þessu er ljós, og þörfin brýn.