20.09.1919
Neðri deild: 69. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2419 í B-deild Alþingistíðinda. (2688)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Frsm. meiri hl. (Gísli Sveinsson):

Það er ekki sem frsm. samvinnunefndar að jeg tala hjer. Jeg vildi að eins drepa á 2 atriði, sem komið hafa fram hjá flytjendum till.

Hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) átaldi það að jeg skyldi ekki geta fallist á þessa till. þar sem jeg f. h. meiri hl. nefndarinnar hefði flutt aðra till., sem hafði inni að halda í einum lið sínum heimild fyrir landsstjórnina til að lögnema Sogið. En jeg verð að líta svo á, að hjer sje alt öðru máli að gegna. Jeg taldi rjett að halda sjer við þá fossa, sem till. ræddi um, en var þess ekki út af fyrir sig fýsandi, að Sogið kæmist í ríkisins hendur, ef það hefði ekki verið fljettað inn í þá till. í till. okkar var Sogið ekki aðal- eða eina atriðið, en hjer er það svo, og þar skilur. Orðalag er líka alt annað. Hjer er alstaðar gert ráð fyrir, að Sogið verði tekið þegar í stað. Eftir till. okkar var ekkert um það sagt, hve nær takan ætti að fara fram; stjórninni voru gefnar frjálsar hendur um það. Þar var heldur ekki gert ráð fyrir eignarnámi, heldur því, að ríkið gerði ráðstafanir til að ná umráða- og notarjetti. Það var ekki nefnt, með hvaða hætti þessu skyldi náð, en til eru margar aðrar leiðir en eignarnám. Jeg geri ráð fyrir, ef vatnsfall verðurtekið, að þá náist samkomulag í flestum atriðum.

Hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) sagði enn fremur, að Reykjavík fengi enga vatnsorku úr Soginu, ef landið tæki það ekki nú. Þetta er alls ekki rjett. Jafnvel þó það væri fullvitað, að þeir, sem hafa umráðarjettinn nú, fengju sjerleyfi, þá væri þeim víst ekkert kærara en að fá Reykjavík að viðskiftavini. Jeg þarf ekki að minna á, að fyrir tveimur árum lá fyrir tilboð frá fjelaginu, sem ýmsum þótti girnilegt þá, en um það skal ekki frekar ræða.

Hv. þm. (B. Sv.) sagði, að ef till. væri samþykt, og þótt ekkert væri um það samþykt, að undirbúning skyldi gera, þá gerði það ekki neitt; stjórnin gæti gert þann undirbúning, sem nauðsynlegur væri, og tekið það fje, sem hún áliti að þyrfti. En til þess að stjórnin geti þetta, þarf hún fyrst að vita, hvað gera þarf, þarf að vita, hvaða undirbúnings er þörf. Og sá undirbúningur allur tæki svo langan tíma, að ekkert viðlit væri, að hann væri búinn fyr en í fyrsta lagi á næsta sumri. Það er enn óvíst, hvað taka þarf af landi, túnum, engjum, vötnum o. fl., og ekki er hægt að ráðstafa fje í þetta fyr en áætlun er gerð, sem bygt verður á. Þetta liggur í augum uppi, og er einkennilegt að heyra menn tala um þetta eins og það gæti gerst þegar í stað. Jeg skil það vel, að fulltrúar Reykjavíkur vilji tryggja bænum vatnsorku í Soginu, en það kemur ekki til greina að virkja Sogið; hver sem það gerir, hvort sem það verður það opinbera, ríkið eða bærinn, eða fjelög, innlend eða útlend, eða einstakir menn, þá er ekki hægt að gera það svo, að Reykjavíkurbær fari varhluta af því rafmagni, sem þar verður framleitt. Ef bærinn vill fá notarjett að Soginu þá er sjálfsagt, að landsstjórnin styðji hann að því og taki það þá fyrir bæjarins hönd, en þar kemur ekki til þingsins kasta, því heimild er til slíks áður í lögum.

Till. samvinnunefndar, sem feld var hjer, og það af þeim mönnum, sem nú bera fram þessa till., leyfði stjórninni að halda áfram rannsóknum í Soginu. Nú er orðið of seint fyrir þingið að láta nokkuð uppi í þessu efni, en það verður að ganga á undan. Engir peningar eru til taks, og ber þá alt að sama brunni, að þetta getur ekki gengið fyrir sig í fljótum hasti.

Alþingi á nú að koma saman á næsta vetri, eftir upplýsingum hæstv. forsætisráðh. (J. M.). Það verður þá fyrir þann tíma, sem nokkur undirbúningur getur farið fram. Jeg sje því ekki, hvað sje á móti því, að landsstjórnin taki málið til athugunar og undirbúnings, því að engu er spilt, þetta er enginn dráttur á málinu. Þá fæst vissa fyrir því, hvað gera þarf ef nokkuð á að gera, og hvað fram eigi að fara, ef nokkuð á yfirleitt fram að fara. Jeg skil varla í því, að fulltrúar Reykjavíkur vantreysti stjórn sinni því að báðir munu þeir styðja hana, og auk þess er hæstv. forsætisráðh. (J. M.) þm. Reykv., og búast má við, að hann verði við stjórn að minsta kosti til næsta þings, og má þá gera ráð fyrir, að hann láti ekki undir höfuð leggjast að gera þann undirbúning, sem nauðsynlegur þykir. Jeg ætla þess vegna að leyfa mjer að bera fram svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

„Í því trausti, að landsstjórnin

1. athugi ásamt öðrum atriðum vatnamálanna, hvort eða hvernig ráðlegt sje eða tiltækilegt, að ríkið nái fullum umráðum eða notarjetti á allri vatnsorku í Soginu eða á nokkrum hluta hennar, og leggi niðurstöðu sína hjer að lútandi fyrir næsta Alþingi, og láti halda áfram mælingum þeim og rannsóknum um vatnsorku o. fl. í Sogi, sem byrjað hefir verið á, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.

Um leið og jeg afhendi hæstv. forseta þessa dagskrá, skal jeg láta þess getið að mjer þykir ekki óviðeigandi að vísa vatnamálunum yfirleitt til stjórnarinnar. Hjer er það skýrt og ótvírætt sagt, að stjórnin skuli leggja niðurstöðu sína fyrir næsta Alþingi, og er henni ekki gefið undir fótinn með drátt á málinu. Jeg hefi áður tekið það fram, að nú er komið í eindaga með þessi mál á þessu þingi, og er því stjórnarundirbúningsleiðin sú eina, sem opin er. Og það dylst víst engum, að rannsókn á Soginu er nauðsynleg, hvernig sem annars fer um þessi mál. Jeg vænti þess því fastlega, að þessi rökstudda dagskrá verði samþykt.