20.09.1919
Neðri deild: 69. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2422 í B-deild Alþingistíðinda. (2689)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Bjarni Jónsson:

Jeg vildi leiðrjetta misskilning, sem kom fram í ræðu hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), um dýrleika vatnsafls í Þjórsá. Jeg flutti það hjer fram til að sýna skaðlegar afleiðingar fossabrasksins, þar sem ,,Titan“ hefir nú þyrlað þessum svo nefndu rjettindum sínum til Þjórsár upp í 12 milj. kr. Þeir telja hlutafje sitt 12 miljónir, en það er á allra vitorði, að sú fúlga fæst að eins með því móti að reikna rjettindin svo hátt. Þetta eru sterkustu meðmæli með því, að landið taki Sogið nú þegar í sínar hendur. Hv. þm. (B. Sv.) fann að þessu, eins og það væri skaðlegt fyrir till. En eins og jeg hefi nú sýnt, þá eru þessar athuganir gagnlegar till. og meðmæli með henni. Það þýðir ekki að láta skeika að sköpuðu og láta erlenda og innlenda fossabraskara þyrla upp verðinu áður en landið tekur vatnsaflið í sínar hendur.

Brtt. mín um að fella burt tilvitnun til fossalaganna frá 1907 hefir mætt andblæstri, og þykir mjer það alleinkenniegt. Þegar stjórn er skipað að ná einhverju á vald sitt, þá þarf ekki að vitna í heimildir; hún er einfær um að finna þær sjálf. Og allra síst á að vitna í þær heimildir, sem orka tvímælis. Þegar þetta er tekið burt, þá verður till. góð og gild, og get jeg vel sætt mig við það, sem eftir er. Kemur þá alt vel heim með þeim hætti sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði. Þegar stjórnin siglir með lög til staðfestingar í haust, þá getur hún hitt að máli þá menn, sem umráðarjett hafa yfir Soginu. Þar á jeg sjerstaklega við cand. Magnús Jónsson, sem á Úlfljótsvatn, en þar yrði helst leitað á um virkjun á Soginu. Stjórnin gæti fengið landið hjá honum og samið við hann um að fara í mál út af eignarrjettinum yfir vatninu sjálfu; þá verður eignarþrætan útkljáð með dómi, og er stjórnin skyldug til að sjá hag ríkisins borgið, og hlýtur að gera það áður en nokkur fær leyfi til virkjunar.

Hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) drap á till., sem feld var hjer, og sín orð þá. Mig furðar á, að stjórnin skuli veigra sjer við að fara í mál, þó að hún hafi einhverja sjerstaka lögfræðisskoðun á þessu máli. Jeg get bent á sænsku stjórnina í þessu sambandi. Hún á altaf í málum út af vötnum, og sumum tapar hún og sum vinnur hún. Hún lætur það ekkert á sig fá, en heldur áfram að fara í mál, því það er skylda hennar að láta ekkert ganga úr greipum ríkisins að óreyndu. Það sama hafði jeg hugsað mjer um þessa stjórn. Þó hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) lýsti sínu áliti, þá getur það ekki bundið stjórnina á nokkurn hátt, því hún á enga skoðun að hafa á dómsstólaatriði fyrirfram Það er stundum tími til að tala, en það er líka tími til að þegja, og hefði hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) vel mátt hafa þessa reglu í huga áður en hann reis hjer upp og talaði.

Jeg vona, að brtt. mín verði samþykt, því þá er óhætt að samþykkja hina till. líka. Annars hefðu menn getað sparað sjer alt þetta, ef þeir hefðu haft vit til að samþykkja þá till., sem samvinnunefnd bar fram um þetta efni.