20.09.1919
Neðri deild: 69. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2424 í B-deild Alþingistíðinda. (2690)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Jörundur Brynjólfsson:

Það eru nokkur orð í ræðu hv. þm. S. Þ. (P. J.), sem gáfu mjer tilefni til að standa upp. Hann sagði það rangt að setja Sogið eða þessa till. um það í samband við rafmagnsþörf Reykjavíkur. Þessu verð jeg að mótmæla eindregið. Ef sú ákvörðun yrði tekin, að landið slepti hendinni af Soginu, þá yrði Reykjavík að láta sjer nægja að setja á stofn þessa litlu og rándýru stöð við Elliðaárnar, sem um hefir verið rætt.

Þá sagði hv. þm. (P. J.), að ekki þyrfti áskorun frá þinginu um þetta efni; það nægði, ef bæjarstjórn óskaði þess við landsstjórnina, að Sogið yrði tekið. Þetta tel jeg mjög hæpið; að minsta kosti talar reynslan ekki fyrir því. Bærinn fór einmitt fram á þetta 1917, en stjórnin hefir hvorki hreyft hönd nje fót til að verða við þeim tilmælum.

Um frv. hv. þm. Dala. (B. J.) 1917 er það að segja, að því var vísað til stjórnarinnar með þeim tilmælum, að hún athugaði það í fossamálinu, sem frv. fjallaði um.

Það, sem gert hefir verið, hefir milliþinganefndin gert, en henni var ekki falið að athuga þetta atriði. Stjórnin hefði þó vitanlega átt að láta athuga þetta atriði líka, en henni láðist að gera það. Jeg hefi sjeð erindisbrjef nefndarinnar, og mig minnir, að ekki sje hægt að ráða af því, að stjórnin hafi ætlast til þessa.

Háttv. þm. (P. J.) gat um, að óvíst væri, hve mikið þyrfti að taka. Jeg held, að fara megi nokkuð nærri um það. Fossafjelagið „Ísland“ hefir látið sjerfræðinga gera áætlanir og mælingar, og held jeg, að óhætt sje að fara eftir þeim. Jeg hygg, að þar megi fá allgóðar upplýsingar. Jeg er ekki á móti því, að Sogið verði rannsakað, en jeg vil ekki, að það yrði má ske til þess að landinu verði dýrara að taka Sogið.

Jeg skal geta þess, að Reykjavíkurbær á nokkurn hluta í Soginu; og því er enn meiri ástæða til að hefjast handa sem fyrst, þegar litið er á, hvernig ástatt er fyrir bænum. Hann bíður stórtjón við hvert ár, sem dregst, að hann fái rafmagn; því hafa verið miklar ráðagerðir um að nota vatnsaflið í Elliðaánum til raforkuveislu til bæjarins, og allmilklar rannsóknir verið gerðar í því skyni. Hefir það komið fram við þessa rannsókn, að mesta neyðarúrræði er að þurfa að hverfa að því ráði. Það kostar of fjár í samanburði við hvað í aðra hönd fæst, og hlýtur því raforka úr Elliðaánum að verða afardýr fyrir hagnýtendur hennar. Það hefir verið áætlað, að það mundi kosta rúmar 3 miljónir króna að koma upp 40,000 hestorkna stöð við Sogið, en að í Elliðaánum mundi 1000–1500 hestorkna stöð kosta litlu minna.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) bar upp rökstudda dagskrá, sem fer í svipaða átt sem tillaga okkar, en er ekki eins ákveðin Hv. þm. (G. Sv.) drap á, að rannsókn vantaði til þess, að hægt væri að láta eignarnám fara fram á skynsamlegan hátt. Þetta er ekki alls kostar rjett, og áreiðanlega gert alt of mikið úr þeim agnúa. En jeg vil að landsstjórnin láti rannsaka það sem á kann að þykja vanta, og jeg efast ekki um, að hún muni gera það.

Hv. þm. (G. Sv.) gat þess, að nú væri ekki fje fyrir hendi til þess að hefja framkvæmdir við Sogið. En víst má telja, að svo skjótt verði ekki hægt við að snúast, að stjórninni vinnist ekki tími til þess að útvega fjeð, ef hún vill sýna dugnað; en jeg er hræddur um, að á það kunni að bresta, ef hún hefir ekki ákveðna skipun til þess.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. (G. Sv.) drap á, að í tillöguna vantaði heimild handa stjórninni til að láta rannsóknina fara fram, þá má fyrir síðari umr. bæta því við, ef þurfa þykir.

Það er ekki tilætlun okkar, að stjórnin hlaupi í að framkvæma alt það, sem farið er fram á í tillögunni, hvernig sem á stendur, en við ætlumst til, að hún vindi bráðan bug að því að athuga málið og rannsaka, og verður að treysta því, að hún að því búnu framkvæmi það, sem hún telur hyggilegast og samkvæmast vilja þingsins.

Jeg hefi ekki á móti tillögu hv. þm Dala. (B. J.) og get greitt atkvæði með henni. Aðalatriðið fyrir mjer er, að umráðarjettur ríkisins yfir Soginu sje trygður.