20.09.1919
Neðri deild: 69. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2429 í B-deild Alþingistíðinda. (2693)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Frsm. minni hl. (Sveinn Ólafsson):

Það, sem mest er haft á móti tillögu þessari, er að undirbúning vanti til þess, að hún verði framkvæmd, og í öðru lagi, að það mundi hafa svo mikinn kostnað í för með sjer að framkvæma hann, að ekki væri gerlegt að ráðast í það að sinni.

Hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hefir að vísu svarað þessu hvorttveggja vel og rækilega. Þó vil jeg víkja lauslega að kostnaðaratriðinu og erfiðleikum fyrir ríkið við að ná Soginu í sínar hendur; því að svo mikil áhersla hefir verið lögð á þessa erfiðleika af mótstöðumönnum tillögunnar. Mjer finst andmælendurnir hafa gleymt því, að landið sjálft á töluvert land að Soginu; það á bæði Kaldárhöfða og Syðri-Brú. Í landi þeirrar jarðar er bæði Kistufoss og Írafoss, og í Kaldárhöfðalandi eru strengirnir og hávaðarnir, þar sem Sogið fellur úr Þingvallavatni. Það er því töluvert vatnsafl, sem ríkið hefir yfir að ráða í Soginu, og ekki þarf það að kaupa land að því, þar sem það á það sjálft. Auk þess er það í almæli, að maður sá, sem á mest af Soginu og landi að því, Úlfljótsvatn, hafi oftsinnis látið það í ljós, að hann kysi helst, að landið eignaðist sinn hluta af því. Það mun því vera auðvelt að komast að samningum við hann með sanngjörnum kjörum. Það liggur í hlutarins eðli, að fyrst muni lagt út á samningaleiðina, og því að eins, að viðunandi samningar náist ekki, mun eignarnám verða látið fara fram. Það er því að gera úlfalda úr mýflugu, þegar verið er að tala um þennan ýkjakostnað við framkvæmd tilllögunnar. Hjer mun ekki vera að ræða um meira en 40–50 þúsund króna kostnað, sem af eignarnáminu mundi leiða, ef miðað er við leigusamningana. og ef tilætlunin er sú, að virkja Sogið, þá mundi þessi kostnaður margborga sig og ætti ekki að geta verið þinginu þyrnir í augum. Það er nú orðið vant við að ráðstafa stærri upphæðum en þetta.

Að vísu kemur fleira til greina. Fjelag það, sem hefir haft Sogið á leigu, hefir borgað leigu af því síðan 1909, og mun sú upphæð vera orðin yfir 20,000 kr.; þessa upphæð geri jeg ráð fyrir að yrði að endurgreiða; sömuleiðis borga því fje það, sem það hefir lagt út til rannsókna, en það mun ekki mikið vera. Aðalatriðið í þessu máli er, að nauðsynlegt er að fá yfirráð yfir Soginu, og það sem allra fyrst. Knýjandi nauðsyn kallar hjer að, einkum fyrir Reykjavík, sem að öðrum kosti mun neyðast til að taka að virkja Elliðaárnar, þótt miklu sje dýrara og óhagkvæmara en ef bærinn gæti fengið raforku úr Soginu.

Jeg skal geta þess, að ágiskun sú, sem komið hefir fram um það, hvað kosta muni að virkja Sogið, er snögt um hærri en ástæða er til, að minni ætlan. Jeg hefi virt fyrir mjer vatnsorkustöðvar nokkuð víða á Norðurlöndum, og hvergi getað komið auga á jafnákjósanlega aðstöðu sem við Sogið. Má því ólíklegt telja, að hestorkan yrði dýrari, virkjuð í Soginu, en þar sem best er aðstöðu í Noregi, eða um 100 kr., miðað við verðlag fyrir stríðið; og ef það er rjett, sem verkfræðingar ýmsir telja, að kostnaðarauki á efni og áhöldum sje nú 50–80% frá því, sem þá var, virðist virkjunarkostnaður Sogsins eigi geta orðið neitt svipaður áætlunum þeim, sem hjer hafa verið gerðar. Væru tilgátur verkfræðinganna rjettar, ætti kostnaðurinn ekki að verða nema 6 milj. króna við að koma upp 60,000 hestorkna rafstöð við Sogsfossana.

Þegar alt þetta er athugað, finst mjer óvenjumikil ástæða til að vinda bráðan bug að því að hefjast hjer handa, og óneitanlega ættu kjörin að vera ólík fyrir Reykjavík, borið saman við það að byggja 10–15 hundruð hestafla stöð við Elliðaárnar fyrir 2–3 miljónir króna.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) vill með rökstuddri dagskrá skjóta málinu til stjórnarinnar til frekari undirbúnings. Það gæti komið til mála að samþykkja slíka dagskrá, ef vafasamt væri, hvort Sogið væri nýtandi til virkjunar. En nú liggur fyrir yfirlýsing verkfræðinga um, að það sje hið ákjósanlegasta til slíkra hluta. Þetta yrði því að eins til að tefja málið, en það má ekki henda. Brýn nauðsyn er að gera þegar tilraun til samninga, nú á þessu hausti, og má það vel verða, er forsætisráðherra fer utan.

Brtt. hv. þm. Dala. (B. J.), um að fella burtu úr þingsályktunartillögunni tilvitnunina í fossalögin 1907, er í rauninni tómur naglaskapur, því að lögnámið hlýtur að fara fram eftir þeim, ef til kemur. En vel get jeg gert honum það til geðs, að greiða atkv. með henni, því að niðurstaðan verður sama og eftir þessum lögum farið, ef á þarf að halda. Aðalatriðið er, að landið fái umráðin yfir Soginu, óskoruð, og engin smávægileg formsatriði í tillögunni mega aftra því.

Öðrum eins kjörgrip og Sogið er má ríkið aldrei sleppa í hendur útlendinga. Hitt getur aftur á móti komið til mála, að það virki fossana í samvinnu við útlenda, þó því að eins, að það hafi með öllu yfirtökin.

En þegar svo langt er komið málinu, að ríkið hafi umráð yfir vatnsafli Sogsins, má fara að taka það mál til nánari yfirvegunar.