23.09.1919
Neðri deild: 71. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2452 í B-deild Alþingistíðinda. (2704)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Forseti:

Eins og tekið hefir verið fram, hefir það komist í venju hjer á þingi, að stjórninni hafa verið heimilaðar fjárveitingar úr ríkissjóði með þingsályktunum.

En jafnframt hefir það þá verið gert með þeim fyrirvara, að slíkar heimildir í tillöguformi sjeu ekki fullkomnar heimildir, þar sem svo er ákveðið í 27. gr. stjórnarskrárinnar, að ekkert gjald megi greiða af hendi, nema heimild sje til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Slíkar ófullkomnar heimildir til að greiða fje úr ríkissjóði hafa því ekki getað stuðst við annað en það, að þær fjárveitingar yrðu síðar teknar upp í fjárlög eða fjáraukalög og samþyktar þannig eftir á af þinginu. Að eins í trausti þess hefir stjórnin getað tekið slíkar heimildir til greina.

Þá er þess að gæta, að þessari aðferð hefir að eins verið beitt um fjárveitingar úr ríkissjóði, en aldrei um lánsheimildir, enda er svo ákveðið í 26. gr. stjórnarskrárinnar, að ekki megi taka lán, er skuldbindi Ísland, nema slíkt sje með lagaboði ákveðið.

Jeg get ekki talið rjett að leggja nú inn á þá nýju braut, að taka lánsheimildir upp í þingsályktunartillögur, og gefa með því stjórninni undir fótinn með lántökur, ef til vill stórar upphæðir, án þess að hún hafi lögfullar samþyktir að baki sjer.

Samkvæmt þessu get jeg ekki betur sjeð en að hinn umræddi úrskurður sje í fullu samræmi við 26. gr. stjórnarskrárinnar, og þar með er þetta mál í rauninni útkljáð, og frekari umr. um það geta því ekki komist að.