26.09.1919
Efri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2463 í B-deild Alþingistíðinda. (2720)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Meiri hl. fossanefndar leyfir sjer að leggja til, að þessi till. sje samþykt, eins og hún liggur fyrir. Einn nefndarmanna hefir þó ekki fyllilega getað fylgst með nefndinni, og mun hann gera grein fyrir skoðun sinni.

Nefndin lítur svo á, að ef til þess kemur, að landið taki að sjer vatnsnytjar, þá sjeu Sogsfossarnir best til fallnir, bæði vegna hentugrar afstöðu og ódýrs rekstrarkostnaðar. Nefndin lítur svo á, að rjett sje að stefna að því marki, að landið reki vatnsiðju, og vill, að ekkert verði því til fyrirstöðu, þegar að því kæmi. Nefndin telur rjett, að þetta þing, sem fjallar svo mikið um fossamálin, láti uppi svona bending um stefnuna, jafnvel þótt síðari þing sjeu ekki bundin við skoðun þessa þings. Með þessu verður þá ekki heldur sagt, að þetta þing hafi ekki látið neitt uppi um fossamálin, þótt hliðrað hafi sjer hjá að kveða upp úr um skoðun sína á eignarrjettinum. Nefndin lítur svo á, að þótt ætlast sje til, að framkvæmdir till. verði mest fólgnar í undirbúningi samninga við þá, sem umráð hafa fossanna, þá verði samt ekki ráðist í neitt stórt, nema til komi samþykki Alþingis, og að ekki verði neinu slegið föstu um vafaatriði, eins og t. d. um eignarrjettinn, eða að hinn aðilinn fái á nokkurn hátt þann skilning á ráðstöfunum þessum, að í þeim felist viðurkenning á eignarrjetti hans.

Nefndin leit svo á, að að vísu hefði mátt breyta fyrirsögninni og fella burt orðið „lögnám“, en gerir þó hins vegar ráð fyrir því, að stjórnin muni haga framkvæmdum sínum eftir sjálfri málsgrein till., en ekki fyrirsögninni, enda hefir stjórnin lýst yfir því, að hún leggi þann skilning í till. Þeir, sem því síður mundu hafa getað aðhylst till. vegna fyrirsagnarinnar, geta nú óhikað greitt henni atkvæði. Hitt er og varhugavert, að stefna till. í Sþ., en svo yrði, ef nú yrði breytt.