26.09.1919
Efri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2464 í B-deild Alþingistíðinda. (2721)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Sigurjón Friðjónsson:

Mjer skilst, að meiri hl. nefndarinnar byggi afstöðu sína til frv. á því, að landið nýti fossana á eigin kostnað.

Jeg álít málið ekki enn komið á þann rekspöl, að rjett sje að slá þessu föstu. Í annan stað hjelt hv. frsm. (K. D.), að hægt væri að semja um Sogsfossana, án þess að til greina kæmi spurningin um eignarrjettinn. Þetta fæ jeg ekki skilið, og er meðal annars þess vegna andvígur till. Jeg hafði ekki búist við því af þessu þingi, að það festi sig við ákveðinn skilning fyrir framtíðina, heldur að stjórnin tæki málið að sjer og byggi það undir næsta þing. Jeg álít, að þingið hafi tekið öfuga stefnu í málinu og þessi till. hefði ekki átt að koma fram. Tel rjettara, að það hefði byrjað á því að setja sjerleyfislög. Jeg leyfi mjer því að afhenda hæstv. forseta rökstadda dagskrá, þess efnis, að till. verði vísað til stjórnarinnar til undirbúnings undir næsta þing.