26.09.1919
Efri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2465 í B-deild Alþingistíðinda. (2723)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg hefi við fyrri umr. lýst skoðun minni á þessu máli og hvatti þá til þess að samþykkja þessa till. Skal jeg leyfa mjer að vísa til þeirra raka, sem jeg flutti þá, sem sje að fossar þessir væru vel lagaðir til framkvæmda og lægju á besta stað. Væri því sjálfsagt að reyna að ná í fossana. Aðalatriðið er þetta, að það komi fram, að vilji þingsins sje að ná í fossana; hitt er minna um vert, þó því verði ekki lokið fyrir næsta þing Ef tillagan verður samþykt, þá hefir fjelagið fengið ótvírætt svar.

Samkvæmt þessu legg jeg á móti rökstuddu dagskránni.