17.07.1919
Neðri deild: 9. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

33. mál, tollalög

Frsm. (Einar Árnason):

Það hafa komið fram tvær brtt. við þetta frv. frá tveimur háttv. þm. Þær eru á þgskj. 82 og 102. Jeg býst ekki við, að komið geti til mála að fallast á brtt. á þgskj. 82. (P. O.: Það er búið að taka hana aftur). Jæja, fyrst svo er sný jeg mjer að brtt. á þgskj. 102. Þó að hún hafi ekki komið fyr en í þessari andránni og fjárhagsnefnd hafi þess vegna ekki haft tækifæri til að taka afstöðu til hennar þá geri jeg ráð fyrir að mjer sje óhætt að segja að nefndin muni vera á móti henni að minsta kosti að því er snertir tóbaks- og vindlatollinn.

Um hækkun sódavatnstollsins úr 4 aurum upp í 6 aura er það að segja að þetta hefir litla þýðingu fyrir landssjóð og tekjuaukinn, sem af þessu leiddi gerði hvorki af nje frá. Hann næmi svo afarlitlu, varla nema örfáum hundruðum króna. Innihaldið er verðlítið að eins nokkrir aurar, og þess vegna yrði gjaldið tiltölulega hátt. Þegar svo við þetta bætist, að tollurinn gæti skoðast sem verndartollur, því innlendar sódavatnsgerðir eru hjer nokkrar, þá er vafasamt, hvort rjett er að samþykkja þessa hækkun.

Þá vík jeg mjer að tóbakstollinum. Brtt. fer fram á að nema brott hækkunina á tóbaki og lækka hana af vindlum úr 8 kr. niður í 7 kr. Ef farið verður að róta þannig til frv. stjórnarinnar, fella burtu, lækka og skera af, þá verður það að mestu þýðingarlaust. Frv. stjórnarinnar gerir ráð fyrir 170 þús. kr. tekjuauka fyrir landssjóð, þar af tæp 130 þús. af tóbaki og vindlum. Okkur kemur öllum saman um, að þörf sje á að auka tekjur landssjóðs, og þar sem þetta frv. yrði þýðingarlítið án tóbakshækkunarinnar, og þar sem tóbak og þess háttar getur á engan hátt talist nauðsynjavara, þá verð jeg að leggja á móti brtt.

Þá er farið fram á að hækka tollinn á brjóstsykri úr 1,50 kr. upp í 2 kr. Það virðist sjálfsagt að tolla, og það allhátt brjóstsykur og annað sælgæti, sem að eins er skaðleg óhófsvara. Hækkun sú, sem brtt. leggur til nemur ekki miklu, og væri víst ekki mikill skaði skeður, þó hún næði fram að ganga. En þar sem hjer er rekin innlend brjóstsykurgerð, þá verður tollurinn, þegar hann er orðinn 2 kr. á kg, verndartollur fyrir þá iðju. Og það út af fyrir sig eru mótmæli gegn brtt. En með því nefndinni hefir borist til eyrna að von sje á frv. um gjald af innlendri brjóstsykurgerð, og í því trausti að það gangi fram, þá mun nefndin greiða atkv. með þessari brtt.