23.08.1919
Neðri deild: 43. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í C-deild Alþingistíðinda. (2967)

83. mál, hvíldartími háseta

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg vona, að mjer fyrirgefist, þótt jeg drepi ekki á öll þau atriði, sem ástæða væri til að minnast á í ræðum þeirra hv. þm., sem ein meira eða minna á móti þessu máli. Það eru nú að minsta kosti 3, sem talað hafa eindregið móti, og 2 eða 3, sem óhætt er að segja að sjeu meira eða minna á móti, eða hafi að minsta kosti sitthvað við málið að athuga. Jeg verð því að taka þann kostinn, að fara fljótt yfir sögu, og drepa ekki á nema fátt eitt, er jeg man best og tel mestu varða.

Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) talaði alllangt mál, og var víða fyndinn. Jeg hygg nú, þótt margt mætti um ræðu hans segja, að ekki sje ástæða til þess hjer að rekja öll þau atriði. Það yrði alt of langt, og lítill vinningur í að rekja öll þau ummæli. Það, sem hann mælti móti málinu sjálfu, voru aðallega sömu atriðin, sem hv. frsm. meiri hl. (M. Ó.) var búinn að taka fram, og er þeim áður svarað. Jeg get því sparað mjer að mestu að minnast á þau, einkum af því, að þau gengu aftur í annað sinn hjá hv. frsm. (M. Ó.). Neyðist jeg til að víkja að þeim, áður en lýkur. Um þau ummæli hans, sem lutu meira að stefnu einstakra manna í alþjóðamálum, er það að segja, að það mætti æra óstöðugan að eltast við slíkt og hrekja. Er það ekki af því, að slíkt sje erfitt verk, heldur hinu, að til þess er enginn tími nje tækifæri á þessum stað að rekja þesskonar efni, sem ekki snertir mikið málið sjálft. En mjer fanst um ræðu hv. þm. (M. Ó.), að þesskonar ummæli í garð einstakra manna, hvaða augum sem á þá má líta, sjeu fremur til ills en góðs. Svo mikið er víst, að sjeu mennirnir á óheppilegri skoðun, og auk þess fastir fyrir og frekir í lund, þá minkar mótstaðan ekki við slíkt. Það er svo í öllum efnum, að við þann mótþróa, sem er ósanngjarn, vex mótstaðan enn meir. Ef gengið er nærri skoðunum manna í stærri alþjóðamálum, sem jafnan hljóta að snerta mjög tilfinningarnar, munu menn verða enn harðvítugri, og jafnvel óbilgjarnir gagnvart þeim, er slíkum kenningum halda fram.

Jeg man ekki, að jeg hafi skrifað hjá mjer annað úr ræðu hv. þm. (M. Ó.), sem snertir málið sjálft, en það, að hann þóttist ekki hafa fullnægjandi sannanir fyrir því, að þessi ósk væri komin frá sjómönnum. Jeg skal játa, að jeg hefði kosið að geta lagt betri gögn á borðið. En jeg vona, að hv. þm. alment efist ekki um, að þessi ósk sje frá hásetum komin. Jeg hefi minst á það, að fyrir nokkrum árum var þessa ákvæðis hvað mest þörf. Jeg veit ekki, hvort sjómenn fóru þá til vinnuveitenda, en hitt er þá víst, að þá hafa þeir ekki fengið leiðrjetting þessa máls. Þá hugkvæmdist hásetum, til þess að firrast vandræði, að leita til löggjafarvaldsins. Það er mjög eðlileg leið. Og enginn hefir dirfst að halda því fram, að það sje ósanngjarnt, að hásetar njóti þeirrar hvíldar, er frv. fer fram á. Hitt hefir komið fram, að ekki væri rjett að leggja út á þessa braut. En það er ærið hjákátlegt að heyra menn halda slíku fram, þar sem menn í öðru orðinu eru að vitna til almennrar löggjafar um atvinnu manna. Það gera sumir þeir, er á móti eru frv., þegar þeir segja, að nauðsyn sje að setja lög um þetta efni á öðrum sviðum. En það gerði einn úr meiri hl., hv. 1. þm. G.-K. (B. K.). En að jeg get ekki sýnt skjallega sannanir liggur í þeirri ástæðu, sem jeg tók fram í gær, þótt hv. meiri hl. gengi fram hjá henni, að þegar samþ. þessi er gerð, eru hásetar á förum hjeðan á botnvörpuskipunum. Er þá í fljótum hasti samþ. þessi ósk, að bera málið fram á þingmálafundi og óska þess, að þingið tæki það til meðferðar. Var því ekki tími til að fá nöfn mannanna, en ekkert hefði verið auðveldara en að fá skjallega nöfn hásetanna, er þessa óskuðu. En allir, sem til þekkja, vita það undur vel, að allur þorri háseta æskir einlæglega að fá aðstoð löggjafarvaldsins í þessu efni. Og mjer dettur ekki í hug að ætla, að þeir hefðu farið fram á þetta, ef ekki væri ástæða til þess.

Þá á jeg eftir að víkja ofurlítið að ræðu hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og hæstv. forsætisráðherra (J. M.), en læt það bíða þar til í lok máls míns. En nú vil jeg fyrst víkja nokkrum orðum að ræðum manna í dag, og tek þá í þeirri röð, er þeir hafa talað.

Er þá fyrst örstutt athugasemd til hv. þm. Dala. (B. J.). Hann finnur það að þessu frv., að það sje hvorki heilt nje hálft; taki ekki nema að eins til háseta, en það mundi vera mesta þörf að setja atvinnulöggjöf yfir höfuð, er taki til alls. Jeg er honum sammála um þetta efni. En nú sem stendur er enginn tími til að semja slíka löggjöf. Það er ekki auðhlaupið að jafnvandasömu verki. En sje þessi einstaka ósk rjettmæt, sje jeg ekki, að það mæli neitt á móti henni, þótt hinar atvinnugreinarnar sjeu ekki teknar með. Það má gera, er tími vinst til. Mjer sýnist þess vegna, að frá hans sjónarmiði sje ekki hægt að hafa neitt á móti þessu máli. Hann mintist líka á, að þessi hvíldartími væri of stuttur. Er það rjett, því að ef menn ynnu 16 kl.st. dag eftir dag, myndu flestir fá sig fullsadda áður en lyki. En frv. ber ekki að skoða svo, að nota eigi starfsafl mannanna til hins ítrasta, innan þeirra takmarka, er lögin setja, heldur er það til að koma í veg fyrir, að mönnunum sje ekki jafnafskaplega ofboðið og átt hefir sjer stað. Og jeg vona, að menn beri hjer alment ekki svo lítið traust til þeirra manna, er þessari vinnu ráða, að þeir muni ekki veita hásetum, er svo stendur á, meiri hvíld en lögin beint heimta.

Þá kem jeg að ummælum háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.). (B. K.: Tekur því ekki!). Mjer fanst sum ummæli hans, er þau eru krufin til mergjar, styðja vel mál mitt. Mjer fanst þingmaðurinn hafa tekið eftir því, að það væri margt í atvinnuháttum okkar, sem væri stórkostlegra umbóta vert, fleira en þetta.

Jeg er sammála honum um, að svo sje. Jeg veit, að það er satt. En hví má þá ekki leiðrjetta eitthvað af þeim misfellum, sem mest ber á? (B. K.: Ekki byrja á neglunni!). Er nokkuð verra að leiðrjetta þetta en eitthvað annað, sem aflaga fer, jafnvel þótt ekki sje tekið það, sem verst er? Hann gat þess, að hann vissi ekki, hvort nokkur ástæða væri til þessa. Má vera, að honum sje ekki kunnugt um þetta. En hitt hlýtur honum að hafa borist til eyrna, að menn eru óánægðir og kvarta. Jeg veit ekki, hve heimtufrekir hv. þm. eru á sannanir. En láti þeir ekki sannfærast af öðru en af eigin reynd, eða yfirlýsingu frá vissum mönnum, þá virðist vel geta svo farið, að þeir menn fái aldrei þá sönnun, sem þeir geti tekið gilda.

Það, sem hv. þm. drap á, að menn gæti spilt heilsu sinni við ýmislegt annað en nauðsynlegt störf, við slys, óhöpp o. s. frv., þá eru það engin mótmæli í þessu máli. Skil jeg ekki, hví menn eru að hreyfa slíku. Og þar sem hann minnist á, að menn vinni margir baki brotnu heilsulausir, þó að þeir viti, að þeir með því sjeu að stytta líf sitt, þá sannar það ekki annað en það, hvílíka erfiðleika menn eigi við að stríða. Og fyrst svo er, skyldi þá ekki vera svo um hásetana, og þessi málaleitun sje sprottin af þeirri almennu hvöt manna, að vilja bjarga sjer? Þeir vinna að sínu erfiða starfi, þótt þeir viti, að þeir spilli heilsunni og stytti lífið, þó að það sje alt of mikil áreynsla, og þeir taki nærri sjer við það. Og þetta er einkanlega skiljanlegt, þar sem þessir háttv. þm. hafa hvað eftir annað tekið það fram, eins og rjett er, að íslenskir sjómenn sjeu drengir hinir bestu, áhugasamir og duglegir. Því fleiri kostum, sem þeir eru búnir, því meiri ástæða er til að halda, að þeir taki nærri sjer við störf sín, þótt líf og heilsa sje í veði.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) sagði, að þá væri byrjað á neglunni, er löggjöfin yrði fyrri að bragði að takmarka vinnu, áður en menn mistu heilsuna. Þetta skil jeg ekki. Jeg hjelt einmitt að slík stefna löggjafans væri holl og sjálfsögð. Málshátturinn segir, að það sje seint að byrgja brunninn þegar barnið sje dottið ofan í. Jeg hygg það hjer, að það sje seint að hefjast handa, til að fyrirbyggja óholl og óheppileg vinnubrögð, þegar heilsan er farin. Jeg sje því ekki annað en hjer sje einmitt valin besta og skynsamlegasta leiðin.

Þar sem sami háttv. þm. (B. K.) mintist á störf sín við sjómensku, vökur og annað, sem hann hefði á sig lagt, þá vil jeg á engan hátt draga þau orð hans í efa. En jeg veit alls ekki, og hann hefir ekki sannað mjer það, að hann hafi sloppið óskemdur frá því. Það getur verið. En mjer er kunnugt um, að þessi hv. þm. (B. K.) hefir alls ekki verið heilsuhraustur í seinni tíð. Er ekki hugsanlegt, að heilsubilun hans eigi rætur sínar að rekja til þessara óhollu vinnubragða á yngri árum.

Háttv. þm. (B. K.) mintist á, að þeir þyldu betur vonda aðbúð, sem vendust ýmsu misjöfnu. Það er auðvitað, að þeir þola betur vosbúð og volk, sem snöggvast, heldur en þeir, sem mjög góðu eru vanir. En jeg hjelt ekki, þótt menn gætu vanist nokkuð vondri aðbúð, að hún væri nauðsynleg þroskun og góðu heilsufari manna. Það kemur að minsta kosti í bága við heilsufræðina og þekkingu manna nú á tímum.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) drap á, að stjórnin hefði átt að semja löggjöf um þetta efni. En fyrst bæði háttv. frsm. (M. Ó.) og háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) eru líkrar skoðunar um þetta atriði, hví hafa þeir þá ekki orðað dagskrá sína með hliðsjón af þessari skoðun? Það hefði verið meira samræmi í því en að koma frv. alveg fyrir kattarnef með þessari rökstuðningu, að ekki sje þörf að ákveða með lögum hvíldartíma á botnvörpuskipum.

Hann mintist og á, að hann vissi ekki, hvort þetta væri almenn ósk. Jeg er búinn að minnast á þetta áður, og get ekki rökstutt það frekar. Það er auðvitað hægt að nota það sem ástæðu nú, að ekki verða lögð fram skjalleg gögn. En jeg er alls ekki viss um, að betur hefði verið tekið í mál hásetanna, þótt þingmönnum hefði verið sýnd nöfn þeirra hundruðum saman.

Það, sem háttv. frsm. (M. Ó.) mintist á, var hið sama og í gær, og þarf jeg því ekki að fara út í hans ummæli. Jeg man ekki eftir neinu atriði, sem ekki væri afturgengið frá í gær, nema einu. En það var þetta, um útlit hásetanna. Jeg skil ekki, hvernig háttv. þm. (M. Ó.) ætlar að rökstyðja og rjettlæta afstöðu sína með því, að hásetarnir líti allvel út. Það er ekki mjög að undra, þar sem þetta eru flest menn á besta aldursskeiði, þetta um og yfir tvítugsaldur, þótt þeir líti sæmilega út fyrsta áratuginn, ef til vill, sem þeir stunda þessa vinnu, einkanlega þar sem þetta er úrvalið af okkar upprennandi kynslóð. Það væri dálagleg atvinnugrein, eða hitt þó heldur, sem umskapaði mennina svo, á stuttum tíma, að ekki væri sjón að sjá þá.

Hann drap enn fremur á, að ekki væri rjett að setja svona lög fyrir menn á sjónum. Jeg held að hv. þm. (M. Ó.) viti, að ítarleg löggjöf er um siglingar, og sumstaðar um þetta efni, erlendis, þó ekki sje enn hjer á landi.

Þá verð jeg að minnast nokkrum orðum á ummæli háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). Hann vildi gefa í skyn, að jeg væri sammála háttv. minni hl. í málinu. Jeg veit ekki, hvernig hann hefir getað fengið það út, þótt jeg sjái og viðurkenni af nál. minni hl., að hann nálgist kröfu sjómannanna. En jeg mælti þó á móti brtt. hans.

Hæstv. forsætisráðh. gekk ofurlítið lengra í ræðu sinni en háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), þar sem hann sagði, að jeg hefði verið að þakka minni hl. fyrir undirtektir hans. Jeg skil ekki, hvaðan honum hafa borist þau orð til eyrna. Jeg skal með leyfi hæstv. forseta lesa orðrjett ummælin um þetta úr ræðu minni í gær, eins og þingskrifarinn hefir ritað þau. Jeg hefi ekki breytt einu orði:

„Um nál. háttv. minni hl. þarf jeg ekki margt að segja. Mjer þótti vænt um að sjá, að einn maður var þó í sjávarútvegsnefnd, sem litið gat þessar óskir háseta rjettu auga.

Niðurfærslan á tímanum var að mínu áliti ekki þörf, þar sem menn þessir munu ekki hika við að vinna eftir getu. Síðara atriðið er líka nokkuð mikið undanhald, og hefði jeg helst kosið, að það hefði ekki komið fram.“ Svona voru orðin, sem jeg viðhafði, og ef menn ætla að draga af þessum ummælum hrós til minni hl., þá þarf ekki mikið að segja þeim í viðurkenningarskyni, til þess að þeir telji það lof um sig. Jeg tel frv. stórskemt, ef brtt. minni hl. verður samþ., þótt það kynni að vera til einhverra bóta, að frv. gengi þannig fram, heldur en það væri drepið. Annars á hæstv. forsætisráðherra (J. M.) lengri þingsögu en jeg, og getur því í þessu efni skírskotað til hennar, hvernig hann hefir talað máli lítilmagnans. Er gott til þess að vita, að lítilmagninn á þar hauk í horni, sem hann er.