28.07.1919
Efri deild: 16. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

33. mál, tollalög

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Hv. þm. Ak. (M. K) vildi andmæla tolli á suðuspritti á þeim grundvelli, að hann kæmi illa niður á fátæklingum. En hvaða tollar eru það, sem ekki koma illa niður á fátæklingum? En þeir borga ekki suðusprittstollinn fremur en hinir efnuðu. Það er hægt að hringla með fátæklingana á móti hvaða tolli sem er. Sami hv. þm. hjelt því fram, að suðuspritt væri notað mikið hjer í Reykjavík vegna þrengsla. Jeg á ekki gott með að átta mig á þessari ástæðu. Er það svo að skilja, að ýmsir drekki það vegna þrengsla, eða hvað? En það er fleira en suðuspritt, sem fátæklingar þurfa að nota. Miklu meiri ástæða væri til að vorkenna fátæklingum tóbakstollinn. Það væri þess vert að minnast nánar á hann. En jeg sleppi því vegna þess, sem hv. þm. Snæf. (H. St.) og hv. 2. þm. G.-K. (K. D.) hafa þegar tekið fram.

Jeg get fallist á þá skoðun hv. þm. Ak. (M. K.), að tollurinn muni ekki fyrirbyggja óhóflega notkun á suðuspritti. En það kemur engu að síður rjettilega niður, að þeir borgi toll, sem brúka þessa vöru í óhófi.

Mjer þótti að vissu leyti gaman að heyra hæstv. fjármálaráðh. (S. E.), að svo miklu leyti sem hann talaði um suðuspíritusinn. Mjer skildist á honum, að það væri farið að hækka í ríkissjóðnum, jafnvel svo, að út af flyti. Mjer þótti bara verst, að annað hljóð skyldi koma í strokkinn þegar hann mintist á tóbakstollinn. Býst jeg þó við, að fátæklingarnir eigi alveg eins ilt með að vera án tóbaks eins og suðuspritts.

Eftir hans skoðun ætti þessi hækkun á tóbakstollinum ekki að verða til að auka tekjur rkissjóðs, jafnauðvelt og hann telur fátæklingum að hætta við tóbakið, sem hefir þá í för með sjer, að innflutningur á því minkar.