18.09.1919
Neðri deild: 67. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í C-deild Alþingistíðinda. (3066)

157. mál, vatnsorkusérleyfi

Sigurður Sigurðsson:

Jeg boðaði brtt. við frv. samvinnunefndar á þgskj. 793, við 1. umr. þessa máls. Þessar brtt. eru nú komnar, og eru þær á þgskj. 843. Jeg vil nú leyfa mjer að fara nokkrum orðum um helstu breytingarnar, en skal þó reyna að takmarka mig.

Fyrsta brtt., við 5. gr., er um þennan fyrirhugaða vatnastjóra. Við ákvæðin um hann eru samtals 7 af brtt., og þegar jeg tala um þessa brtt., tala jeg í raun og veru um þær allar.

Það er fyrst um þennan vatnastjóra að segja, að jeg tel hann ekki vera nauðsynlegan. Samt hefi jeg ekki viljað strika hann út úr frv. Um leið og jeg tel hann óþarfan, þá þykir mjer að sjálfsögðu honum vera gefið alt of mikið vald. Hann verður í raun og veru einvaldur. Að vísu sagði háttv. frsm. (G. Sv.), að stjórnin væri ekki skyldug til að fara eftir hans meðmælum. En jeg þykist vita, að stjórnin muni í flestum kringumstæðum ekki neita leyfisbeiðni, sem hann mælir eindregið með. En nú gæti hugsast, að hann legðist á móti, að leyfi væri veitt. Ætli stjórnin skirrist þá ekki við að veita leyfið? Ef vatnastjórinn væri á móti allri stóriðju, sem rekin væri með vatnsafli, mundi hann leggjast á móti, að öll slík leyfi væru veitt. Hann mundi þess vegna geta komið í veg fyrir, að nokkur vatnsvirkjun væri rekin hjer á landi.

Jeg hefi viljað draga úr valdi þessa manns. Jeg vil, að hann sje að eins ráðunautur, sem stjórnin leitar álits hjá. Þetta er í stuttu máli þær breytingar, sem jeg hefi viljað gera á valdi vatnastjórans.

Þá er næsta höfuðbreyting við 8. gr. Hún fer í þá átt, að fella síðustu setninguna aftan af greininni. Í síðari málsgrein þessarar greinar er svo ákveðið, að ef sjerleyfi sje veitt á orku, sem fer upp að 50000 eðlishestorkum, skuli það ekki veitt, nema Alþingi samþ. það tvisvar, fyrir og eftir nýjar kosningar, án þess þó, að þing sje rofið. Þetta ákvæði vil jeg fella burtu. Jeg tel nóg, að þingið samþ. þetta tvisvar, án þess að fram fari nýjar kosningar. Hitt gæti valdið óþægilegum töfum fyrir umsækjanda. Ef hann sækti um leyfið á 1. þingi eftir nýjar kosningar, yrði hann að bíða 4 ár, eða lengur, ef ekki yrði þingrof á þeim tíma. Auk þess tel jeg ekki viðfeldið að setja slíka umsókn í samband við kosningar, því að þær mundu þá snúast um þetta atriði. En það tel jeg ekki vera heppilegt. Enda á það að vera nægileg trygging, að leyfið sje samþ. tvisvar af Alþingi. Tel jeg ástæðulaust að fara lengra í því efni. Ef þm. eru leiðitamir í þessum málum, eins og þeim er stundum brugðið um, þá má gera ráð fyrir, að það eigi sjer ekki síður stað, ef sterk „agitation“ væri hafin um sjerleyfi til notkunar vatnsorku.

Þá er sú breyting við 12. gr., að sjerleyfistíminn lengist úr 55 árum upp í 65 ár. Þetta er sama tímabilið og ákveðið var í frv. minni hl. milliþinganefndar í fossamálinu. Í till., sem stjórn „Titans“ sendi samvinnunefnd, var óskað, að tímatakmarkið væri 75 ár. — 65 ár eru því meðalvegur. Í þessu sambandi skal jeg geta þess, að í frv., sem flutt var í Ed. 1917, um leyfi handa fossafjelaginu „Ísland“ til þess að nota Sogsfossana, var tímatakmarkið 99 ár. Jeg held því, að með 65 árum sje mjög hóflega í sakirnar farið. Jeg geri líka ráð fyrir, að flestum, sem um slíka starfsemi hugsa, mundi þykja hún lítt aðgengileg, ef sjerleyfistíminn væri styttri.

Um smábreytinguna við 13. gr. skal jeg ekki fjölyrða, enda legg jeg ekki mikið kapp á hana.

Þá er næsta höfuðbrtt. við 27. gr. í 1. málsgr. þessarar greinar er getið um það, hverjum heimilt sje að veðsetja hlutabrjef og önnur skírteini fjelags, sem fengið hefir eða á að fá sjerleyfi til vatnsvirkjunar, og er svo fyrirmælt, að þau megi ekki veðsetja öðrum en ríkinu eða Landsbanka Íslands. En landsstjórninni er þó heimilað að veita leyfi til að veðsetja þau öðrum bönkum eða fjelögum á Íslandi. Brtt. mín fer í þá átt, að stjórninni sje heimilt að veita leyfi til að veðsetja brjefin öðrum, án tillits til þess, hvort þeir eru Íslendingar eða útlendingar. Höfuðatriðið er eftir sem áður það, að hlutabrjefin skuli veðsett ríkinu eða Landsbanka Íslands. Hitt er að eins undanþága, ef ríkar ástæður mæla með. Hv. frsm. (G. Sv.) gat þess, að samskonar ákvæði væri líkt í vatnalögunum norsku. Þetta má vel vera. En jeg vil benda á það, að þar er ólíku saman að jafna. Þó að Norðmenn sjeu ekki stór þjóð, þá er þar þó meiri markaður fyrir hlutabrjef í miljónafyrirtæki heldur en hjer á landi. Jeg hygg, að þetta ákvæði geti orðið þess valdandi, að engum dytti í hug að sækja um sjerleyfi til vatnsvirkjunar. Sumir munu nú reyndar álíta, að það væri ekki illa farið. En þeir, sem trúa á nytsemi vatnsorkunnar, óska ekki, að til slíks verði stofnað.

Um 12. liðinn í brtt. mínum getur enginn verulegur skoðanamunur orðið. Hann miðar að eins að því, að gera ákvæðið skýrara, sem sje, að fyrir „hverja hestorku“ komi: „hverja hagnýta hestorku“ o. s. frv.

Brtt. við 35. gr. eru að sumu leyti orðabreytingar, og að öðru leyti smáefnisbreytingar, sem engu máli skifta.

Hið sama má segja um brtt. við 37. gr. Hún gerir ráð fyrir, að síðasta málsgrein þessarar greinar falli burt.

Þá er síðasta brtt., við 39. gr. Þessi gr. gerir ráð fyrir, að fossalögin frá 22. nóv. 1907 sjeu numin úr gildi með ákvæðum þessara laga, og svo önnur ákvæði, sem brjóta kynnu í bága við lög þessi. Þetta tel jeg fráleitt. Jeg ætlast til, að 2. kafli laganna frá 22. nóv. 1907 fái að standa óhaggaður eftir sem áður. Hann ræðir um eignarrjett á vatnsorku og bætur fyrir vatnstöku.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar. En jeg skal taka það fram, að frv. er að mörgu leyti ítarlegt og hefir inni að halda mörg öryggisákvæði gagnvart þeim, er leyfi kunna að fá til vatnsorkunytja, og er ekkert frekara um það að segja. En hins vegar eru ýmsar takmarkanir í frv., sem munu gera fremur ófýsilegt að stofna hjer til stóriðju, ef frv. verður samþ. óbreytt. Ef það er ætlunin að búa til sjerleyfislög, sem ekki eiga að útiloka menn eða fjelög frá fossiðju, verða þau að vera svo úr garði gerð, að einhverjir sjái sjer fært að sækja um sjerleyfi til slíkra hluta.

Loks skal jeg taka það fram, að jeg geri ekki ráð fyrir, að þetta frv., nje neitt annað samskonar frv., nái þeim búningi á þessu þingi, sem viðunanlegur sje. Tel jeg því óráðlegt að samþ. nokkurt slíkt frv. að þessu sinni. Það er skamt að bíða næsta þings, og þá ætti að vera hægt að ganga svo frá lögum um þetta efni, að við mætti una. — En það mundi verða þorra manna mikil vonbrigði, ef lög um þetta efni yrðu svo úr garði gerð að lokum, að þau útilokuðu menn frá að sækja um sjerleyfi til fossiðju. — Þá væri ver farið en heima setið.