18.09.1919
Neðri deild: 67. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í C-deild Alþingistíðinda. (3069)

157. mál, vatnsorkusérleyfi

Bjarni Jónsson:

Bjargvættur landsins hefir nú sagt, að hún gæti ekki fallist á þetta frv. Sagði hún afdráttarlaust, að það væri vegna þess, að ekki væri skorið úr deiluatriðinu um eignarrjettinn á þann hátt, sem 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), sem „Tíminn“ nefnir „bjargvætt landsins“, vill skera úr því, eða á þann hátt, að einstaklingurinn eigi vatnið. Hann vil gefa þeim vatnið. Nú er vitað, að mörg og rík rök hafa verið færð fyrir því, að þeir eigi það ekki, og það af mönnum, sem eigi síður eru færir um að skilja lagafyrirmæli forn og ný.

Þá er það einkennileg sparnaðarstefna frá meiri hluta sjónarmiði, að vilja eigi fallast á sjerleyfislagafrv., af því að það kastar ekki frá ríkinu eign þess, afllindum, sem hækka munu stórum að verðgildi á næstu árum. Það verður ekkert smáræði, sem sparnaðarmennirnir kasta burtu frá ríkinu, án þess nokkur knýi á. Samt ætla þeir sjer að lifa á því, að lækka laun embættismanna og ná nokkur hundruð krónum frá fáeinum fátækum gáfumönnum, listamönnum eða öðrum, sem þeim mætti vera lítill styrkur að. Og það eru þó ekki eins margir tugir og það eru miljónir, sem þeir vilja nú kasta burtu af eignum ríkisins, að óreyndu máli.

Þá skilja menn, hvers vegna þeir vilja ekki, að mál þetta komi fyrir dómstólana. Það er af því að þeir trúa því ekki, að þeir vinni málið fyrir dómstólunum. Hjer er þá fullkomlega lýst sparnaðarstefnu hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), og jafnframt gefið í skyn, hverja bjargvætti landið á þar sem hann er.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) talaði líkt og aðrir um vatnastjórann. Hans ástæða var einkum sú, að það dugi ekki að setja slíkan embættismann, meðan ríkið hafist ekki neitt að í fossamálinu. Er mjög undarlegt, að þessi háttv. þm. mælir svo, þar sem hann er að því leyti sömu skoðunar og jeg og meiri hluti milliþinganefndar, að það beri að fara varlega mjög í það, að láta stóriðju komast að í landinu. Þá stendur það nú mjög illa heima, að hann vill byrja áður en sá maður er settur, sem mest skyn hlýtur að bera á slíka hluti. Mest er komið undir byrjuninni. Þekkinguna þarf til frá upphafi, til að spara glappaskotin. Þessi röksemdafærsla háttv. þm. rekur sig þá á aðrar röksemdafærslur hans, eins og oftar.

Eitt rekur sig á annars horn,

eins og graðpening hendir vorn.

Á hverju hvílir þetta? Það hvílir á því, að háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) getur ekki hugsað sjer nokkur fyrirtæki nema framkvæmd af útlendingum. Sumir vilja ólmir fá stóriðnað inn í landið. En þeir vilja ekki hafa þekkinguna með. Það er af því, að þeir halda, að stóriðja komi ekki, ef maður, sem hefir þekkingu og vit á þessum málum, stendur við hlið stjórnarinnar. En þeir hafa meiri von um æti, ef enginn maður með viti kemst að. Þess vegna er undarlegt að sjá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) í flokki með þessum afsalsmönnum, þessum opingáttarmönnum. Það er líka undarlegt af honum að hafa ekki athugað, að þar sem ríkið sjálft tekur slík vinnutæki í sínar hendur, er það gróðafyrirtæki fyrir ríkið. Hann veit hversu þetta er með Svíum. Hann þekkir vald það, sem „kungliga vattenbestyrelsen“ í Svíþjóð hefir. Þetta þekkir hann vel, og gat þar af dregið þá ályktun, að eigi verði komist af með minna hjer en einn kunnáttumann.

Það er þetta, sem er skilningsleysi á því, að virkjunarfyrirtækin eru gróðafyrirtæki, og fer þaðan saman við alþjóðarhag. Ef ríkið stendur fyrir, metur það ekki sitt afl dýrara fyrir almenning en nauðsyn krefur. En sje það erlent gróðafjelag, selur það kraftinn svo dýrt, sem það sjer sjer fært. Alþýðan verður þá að borga það gaman, sem þessar ágætu bjargvættir(!) hafa af stóriðjurekstri útlendinga hjer á landi.

Það er nú eigi annað en þetta, sem jeg þurfti að tala við hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.).

Við hv. 2. þm. S.-M. (B. St.) þarf jeg ekki að þrátta mikið. Sumar af hans brtt. eru meinlausar, en sumar aftur fráleitar. Skal jeg að eins drepa á eina. En fyrst vil jeg nefna þennan almenna inngang ræðu hans, að hann vildi ekki setja alt of ströng skilyrði, svo að hann gæti verið viss um, að einhver útlendingur vildi þiggja vötnin okkar til að vinna með. Hann gáir ekki að því, að hve ströng skilyrði, sem sett eru, kemur það ekki niður á ríkinu, hvort sem það sjálft á vatnið, eða tekur það gegn endurgjaldi. Þar þarf engin skilyrði að setja. Þar ræður Alþingi öllu um. En að setja hinum, útlendingunum, ströng skilyrði, er þessu landi lífsnauðsyn.

Hv. sami þm. (B. St.) er hvergi hræddur, þótt inn í landið komi nokkrar miljónir króna, og nokkur hundruð útlendra verkamanna. Hann heldur, að ekki þurfi nema nokkur hundruð verkamanna. Hann má trúa, að til þess þarf fleiri þúsund manna en hann hyggur hundruð. Þeir eru víst ekki hræddir, Sunn-Mýlingar, þótt blandist tungan og þjóðernið, en jeg held þó, að þar sje hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) ekki á sama máli. Enda er hann með það annað veifið, að hann vilji sjá borgið tungu og þjóðerni, þótt eigi sje hann samkvæmur sjálfum sjer í till. sínum.

En þá var till. hv. 2. þm. S.-M. (B. St.), sem jeg vildi nefna. Það var um þessa járnbraut. Það er dálítið einkennilegt að áskilja hjer, að sjerleyfishafi leggi járnbraut, er verði eign ríkisins. Það er ekkert smáræðisgjald, og virðast ekki hlaupvíðar dyr, þar sem leyfishafi á að byggja járnbraut til að gefa landinu. Það yrði mikið gjald, ef í það ætti að fara. En sá fiskur, sem þar er falinn undir steini, er þessi, að ef setja á með veitingu sjerleyfisins slík skilyrði, þá yrði að veita manninum að öðru leyti svo góð kjör, að hann gæti grætt á því að leggja járnbraut og gefa landinu. Hver græðir? Myndi ekki landið kaupa járnbrautina dýrara en ef það bygði hana sjálft? Hygg jeg, að þetta yrði enginn búhnykkur, nema það sje klaufi, sem samið væri við, klaufi, er ljeti ganga á rjett sinn. En það er alls eigi fyrir fram víst, að þeir útlendir menn, er semja skyldu við stjórnina hjer, sem enga vatnastjórn hefði sjer við hönd, yrðu heimskari en stjórnin hjer. Það er alls ekki vert, að löggjöfin byggi á því, að stjórnin hjer verði altaf svo kring í samningum, að hún sneri á hvern þann, er hún leitaði samninga við.

Hygg jeg því, að óhætt sje að leggja þessa till. fyrir óðal, því hún mun aldrei verða til hagnaðar, heldur þvert á móti.

Svo ætla jeg að eins að koma að nokkrum atriðum, sem hv. 1. þm. Árn (S. S.) bar fram. Hann var sammála hinum háttv. þm., sem vilja, að vatnastjóri sje helst ekki, síst með því valdi, að hann geti varnað stjórninni að veita sjerleyfi, er svo stendur á. Jeg vil nú ekki gera þessum hv. þm. (S. S.) þær getsakir, að hann vilji ekki, að þekkingin komist hjer að, og hefði þó mátt skilja ræðu hans svo. En hann vill, að þekkingin sje valdalaus og gagnslaus gagnvart stjórninni, ef svo skyldi til takast, að sú stjórn væri í landi, er vildi veita sjerleyfi landinu í óhag, eða vissi eigi betur en svo. Hann vill þá, að þekkingin standi og gjammi eins og hundur framan í lambá, er stendur kyr og stappar klaufum í þrjósku. Þá væri þó betra, að þekkingin hefði vald og gæti stöðvað illvirki, ef til væri stofnað. Jeg vil ekki spá um neina sjerstaka stjórn, en slík getur komið. Ef stjórnin gerir samninga fyrir ríkið, verður það eigi aftur kallað, og veiti stjórnin sjerleyfi, verður ríkið að standa við það, geri stjórnin alt þetta samkvæmt lögum. En geti þessi maður sagt nei, er það vörn. Og sje hann of samviskusamur og neiti því, er þingið vildi veita, þá er það frestur í málinu. Þá bíður það næsta þings, og þá getur hv. 1. þm. Árn. (S. S.) aftur tekið til og barist fyrir málinu.

Og hverjum er þetta til góðs? Cui bono? Ríkinu? Nei! Ríkið getur vel beðið. Það þolir hálfs árs frest. En þetta er þeim til góðs, sem sækir um leyfið. Hv. 1. þm. Árn. (S. S.), og fleiri aðrir, hafa í huga erlent fjelag, er sæki um leyfið til þess að græða á afllindum landsins. Þetta er erlendu fjelagi í hag.

Svo segir hv. þm. (S. S.), að hann sje hræddur um, að einhvern tíma komi sá vatnastjóri, er stöðva vilji stóriðjuna og ekki hleypa henni inn í landið. Það má vel vera, að það væri þessu landi mikil gæfa að fá stóriðju inn í landið. En þó hafa þeir, sem öðrum meir hafa rannsakað þetta mál og hugsað, haldið því fram, að hún muni ekki verða til mikils góðs. Og þó að jeg vilji ekki nefna sjálfan mig, eða bera mig saman við þann vísa Sirak, er jeg nú á orðastað við, gæti jeg þó nefnt Jón Þorláksson, Guðm. Björnson og hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Hafa þessir allir komist að þeirri niðurstöðu, að stóriðja eigi ekki að komast að. Og ef hv. 1. þm. Árn. (S. S.) þykja þessir vera smápostular, sem geti eigi hafa komist að jafnrjettri niðurstöðu og þeirri, er hann hefir komist að, þá mætti nefna verkfræðing þann hinn norska, er ritað hefir mjer brjef það, sem jeg hefi látið prenta og þingm. hafa átt kost á að lesa. Hann heldur því beint fram, að stóriðjan í Noregi hafi verið svo afdrifarík, að þjóðin komst þar í kröggur, verðmæti alt skektist, svo að hjelt við þjóðarvoða. Og auk þess sagði hann í viðtali við mig, undir votta, sem illu heilli eru hjer eigi viðstaddir, að ef Íslendingar leyfðu að setja upp eitt stórfyrirtæki, hvað þá tvö eða fleiri, þá yrði eigi að ræða um íslenska þjóð eftir 20 ár. Þetta er blessunin af stóriðjunni, að menn fá hjer færi á að glata sinni tungu og þjóðareinkennum, og það af rökum rjettum og eðlilegum orsökum, eins og menn nú þegar leggja niður nöfn sín rjett og taka upp skrípanöfn, af bláberum uppskafningshætti og heimsku. En um þetta, sem hjer er á ferðum, má segja orð Hórazar:

„Quidquid delirant reges plectuntur Achivi“.

Afleiðingar glapræðis þessa kæmu víst ekki niður á sjálfum hv. 1. þm. Árn. (S. S.). En þær kæmu einkum niður á kjósendum háttv. þm. (S. S.), því að einkum munu risa upp iðjuver í Árnessýslu. Þá verður hver vinnustrákur og stelpa gerþurkuð út af heimilum sínum. Þau dragast öll að stóriðjuverunum. Og stórbændur þar, sumir synir hinna trygglyndu kjósenda hv. þm. (S. S.), myndu komast það hæst, að slá tún og reka kýr hjá stóriðjueigendunum, á einstökum jarðaskikum, sem þá verða enn í rækt. Þegar landbúnaðurinn er dauður, verða þeir kúasmalar iðjuhöldanna, þessir kjósendur hv. þm. (S. S.), sem sent hafa hann til þess að gæta hagsmuna þeirra gegn stóriðjunni og annari hættu, er yfir vofir. Hv. þm. (S. S.) má vita, að svona fer fyrir Árnesingum, ef hans hugsun kemst í framkvæmd. Og þótt ýmsir, sem eiga orkurík stórvötn, þakki honum nú munu þeir fleiri, sem kunna honum enga aufúsu gerða hans í þessu máli. En það eru þeir, sem ekki eiga tilkall til vatnsafls, en kynnu að vilja krefjast þess, að þeim væri líka ætlaður einhver rjettur til þess vatns, er fellur úr skýjum loftsins í Árnessýslu, en að rjettur til þess væri eigi eignaður þeim einum, sem eiga jarðir á árbakkanum. Hvað segir hv. 1. þm. Árn. (S. S.) um það? Hann ætti að hugsa sig vel um, áður en hann legði móti þessu frv., úr því að hann gerði sig sekan í að greiða atkv. á móti till. á þgskj. 725. Sami hv. þm. (S. S.) vill ekki hafa kosningar á milli; hann hefir í rauninni ekki neitt á móti því, að tvö þing samþ. að veita sjerleyfi, en hann vill ekki hafa kosningar á milli. Hverjum er það til góðs? Er það ríkinu íslenska til góðs, eða er það megninu af kjósendum hans í Árnessýslu til góðs? Við skulum segja, að nú veitti ríkið sjerleyfi, sem hættulegt væri landinu, nú þyrfti annað þing að samþ. Hverjum er það til góðs? Cui bono, ríkinu eða þeim, sem um sjerleyfið sækir, að sömu þm., sem veittu sjerleyfið, skuli nú fjalla um þetta aftur? Það er áreiðanlega þeim til góðs, sem um sjerleyfið sækir. Nei, eina bótin er, að kosningar fari fram á milli, því það er engin björg, þótt sömu þm. greiði tvisvar atkv. um það sama. Það er engin trygging fyrir því, að þeir, sem á einu þinginu hafa verið í kaupavinnu hjá erlendum fjelögum, verði það ekki einnig á næsta þingi. En ef kosningar snúast um málið, kemur vilji kjósenda í ljós; ef ekki fara fram kosningar, er hægt að skella hættulegu sjerleyfi á þjóðina í hundahljóði.

Þá vill þessi sami háttv. þm. (S. S.) lengja tímann. Hverjum er það í hag? Er það til þess að tryggja ríkið? Nei, það er auðvitað til þess, að sá, sem leyfið hefir, geti auðgast sem mest á því. Hann á að hafa sjerleyfið 10 ár framyfir það, sem samvinnunefndin vill, og auðvitað til þess að geta haft hreinan gróða í 10 ár. Svo vitnaði þessi maður (S. S.) í það, sínu máli til stuðnings, að „Titan“ hefði viljað fá sjerleyfi í 75 ár. Hann er svo sem ekki hlutdrægur, „Titan“, í þessu máli, það má svo sem trúa honum. Svo ætlar þessi hv. þm. (S. S.) að fara milliveg; hann vill ekki alveg verða við beiðni „Titans“, heldur vill hann klípa af, eins og þetta væri fjárveiting til skálds eða listamanns. Svo mintist hann á það, að 1917 hefði komið til tals að veita sjerleyfi til 99 ára. Það var ekki dónalegt, hefir sjálfsagt verið ríkinu í hag, ef slíkt hefði verið samþykt. Ekki hefði það verið gert til þess að tryggja fjelagið!! Vjer þurfum ekki annað en að hugsa oss afleiðingarnar. — En hugsum oss nú löggjafaraðferðina í þessu landi, hvernig hún yrði. Nú kemur nefnd, sem sett hefir verið af þinginu, og leggur hún til, að sjerleyfið verði veitt til 55 ára, en svo kemur erlent auðfjelag og segir, að það vilji fá það til 75 ára, og þá kemur einn þm. (S. S.) og vill fara milliveg milli fjelagsins og nefndarinnar. En svo kynni nú fjelagið að nefna 99 ár, eins og fossafjelagið „Ísland“ hjer um árið. Ætli þessi hv. þm. (S. S.) vildi þá ekki hækka sig upp í 75 ár. —

Eitt er enn, sem jeg vil minnast á, og er það hættulegasta við till. hv. þm. (S. S.), og er það um sölu hlutabrjefanna. Eins og frá því er gengið í frv. samvinnunefndar, er það sjálfsögð trygging, til þess að þau lendi ekki í höndum erlendra ríkja eða auðmanna. Norðmenn hafa trygt þetta mjög vel, sem von er. Eða muna menn ekki, hvers vegna Bretar sögðu Búum stríð á hendur og rændu þá frelsi? Það var ekki mismunur á rjetti Breta og Búa, heldur voru það hinar auðugu demantanámur í nánd við Prætoriu. En þótt þetta vatnsafl sje ekki eins dýrmætt og gimsteinanámur, þá er það þó svo dýrmætt, að hætt er við, að önnur ríki hefðu augastað á því.

Hjer á þinginu er nefnd, sem í löggjöf sinni reynir að reisa skorður við því og hamla því, að útlendingar líti girndaraugum til auðæfa landsins, en þá kemur þessi hv. þm. (S. S.) og leggur það til, að stjórnin megi heimila, að hlutabrjef verði seld erlendum mönnum, ef hún sjer ástæðu til þess. Hjer er alt undir stjórninni komið, og ef hún reynist illa, þá er engin björg. — Hugsum oss, að hjer sje stofnað til stóriðjufyrirtækis; nú er beðið um leyfi til að selja þetta fyrirtæki tveimur eða þremur enskum auðmönnum. Stjórnin vill veita þetta, annaðhvort af hrekkvísi eða heimsku. Hvað kemur svo úr kafinu eftir á? Það, að þessir auðmenn hafa ekki verið annað en leppar, og hafa þeir keypt fyrir ensku stjórnina, og þá getur hver sjeð, hvaða skorður verða reistar við fossaiðnaðinum, þegar þetta er hægt að gera, og hvílíkt Gósenland leppanna yrði Ísland þá, ef þetta yrði leyft. Dyrnar standa upp á víða gátt, ef till. hv. þm. (S. S.) verða samþ., og hverjum er það í hag? Er það landsmönnum í hag, eða er það til að tryggja kjósendur þm. (S. S.) í Árnessýslu? Nei, þetta er, eins og allar hinar till., í hag erlendum stórgróðafjelögum, og greylegum leppum. Það er vegið hjer að landinu með þeim hættulegustu vopnum, sem til eru, og þessi hv. þm. (S. S.) gerir með þessu tilraun til að slá úr höndum Íslands það vopnið, að hlutabrjef stóriðjumanna megi ekki ganga kaupum og sölum erlendis. Þetta er það sama, ef samþ. verður, sem að snúa hengingaról að hálsi sjer.

Þá kem jeg að 12. liðnum á brtt. þessa hv. þm. (S. S.). Er þar farið fram á, að 33. gr. frv. samvinnunefndar verði breytt. Greinin er þannig: „Brot á skilyrðum þeim, sem eitthvert sjerleyfi er bundið, varða sektum, 5 kr. á hverja hestorku, sem heimiluð er til afnota samkvæmt sjerleyfinu, eða sjerleyfisriftingu, ef miklar sakir eru“. Í stað orðanna „hverja hestorku, sem heimiluð er til afnota samkvæmt leyfinu“, komi „hverja hagnýta hestorku, samkvæmt 13 gr.“ Þetta er ekki hættuleg till., en hún getur ekki staðist, því að ekki er hægt að tala um aðra hestorku en þá, sem talað er um í sjerleyfinu, því hvað sje í framtíðarinnar sjerleyfum, hvort þar verða nefndar eðlishestorkur, eða hagnýt hestorka, það veit enginn nú.

Þá vildi þessi hv. þm. (S. S.) halda því fram, að sjerleyfislög ættu ekki að ganga fram nú, þar eð þau voru ekki svo vel undir búin sem skyldi. Mikið á að undirbúa þetta mál. Milliþinganefnd hefir nú setið á rökstólum alllangan tíma; er mjer kunnugt um, að meðnefndarmenn mínir hafa unnið vel, hvað sem um mig má segja. Þessi nefnd hefir komið fram með rökstuddar skoðanir. Er málið kemur inn á þing, er sett enn sjernefnd í málið, og hefir hún nú komið með frv. það, sem um ræðir. Þetta mál er því miklu betur undir búið en nokkurt annað mál. Jeg held því, að þessi till. háttv. þm. (S. S.) sje ekki fram komin til þess að tryggja kjósendur hans í Árnessýslu, og hvað undirbúninginn snertir, held jeg, að af þeim sökum þurfi hv. þm. (S. S.) ekki að fyrirverða sig fyrir að greiða atkv. með frv. Annað mál væri, ef hann hjeldi því fram, að vatnalög ætti ekki að samþ. á þessu þingi, því að þá væri hann á sama máli og jeg, sem vil ekki láta samþ. þau fyr en að afstöðnum kosningum. En það er ekkert því til fyrirstöðu, að sjerleyfislög gangi fram nú þegar. Annars vil jeg geta þess viðvíkjandi vatnalögunum, að jeg ljet bera upp till. vestur í Dölum, þar sem skorað er á Alþingi að samþ. ekki vatnalög. Þetta var samþ. þar, og síðan bað jeg Magnús á Staðarfelli að bera það upp á fundi, sem hann hjelt fyrir mig. Og þar var það samþ. En nú hefir svo broslega til borið, að þetta er talið gert af óvild til mín, í „Tímanum“. En ef sjerleyfislögin verða ekki samþ. nú, hverjum er það til góðs? Ekki ríkinu eða kjósendum alment, nje í Árnessýslu, heldur einstökum bröskurum erlendum og þeim innlendum, sem búa meðfram stóránum og hafa von um gróða í fossabraski. Það er vitað mál, að aldrei hefir verið hamast eins í fossabraski og síðan milliþingan. í fossamálinu tók til starfa.

Og samþ. ekki þetta þing sjerleyfislög og setji þannig skorður við frekara braski, þá mun eftir nokkurn tíma ekki eitt einasta vatn vera óselt, og mun það, sem selt er, ekki að eins verða metið á 12 miljónir króna, heldur á 100 miljónir króna. — Þessar vífilengjur um, að sjerleyfislög eigi ekki að samþykkja nú, eru því til þess eins fram bornar, að fossafjelögin geti grætt sem mest á bralli því, sem þau hafa haft hjer í frammi, með því að senda hingað leynilega sendimenn til þess að ginna þessa hluti út úr fáfróðum mönnum fyrir smámuni. Það er því til góðs þjónum þessara fjelaga, sem eiga hjer bæði heil blöð og venslamenn, og nú er að sjá, að eigi suma þm. líka. Þetta er það, sem orsakar alt hatrið og allar skammirnar, sem dynja á okkur, meiri hl. fossanefndar, í blöðum þessara þjóna erlendra auðkýfinga. Það er af því, að við erum ekki að hugsa um að græða á þjóðinni og hafa hana fyrir fjeþúfu. En þessu leigufólki vil jeg lofa því, að landsmenn skulu fá að vita, hvernig í öllu liggur. Það eru ekki þessir menn einir, sem geta sagt, að þjóðin skuli fá að vita alt, því að það erum vjer sjerstaklega, sem getum talað úr flokki og borið um, að þjóðin þarf að vakna og sannfærast um þann svikavef, sem verið er að vefja hana í. Og þjóðin skal vakna, þótt nú sje verið að reyna að drepa rjett mál.