30.07.1919
Efri deild: 18. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

33. mál, tollalög

Kristinn Daníelsson:

Vjer höfum leyft okkur, þrír deildarmenn, að flytja brtt. á þgskj 195, um að tóbakstollurinn verði ekki hækkaður frá því, sem nú er. Vjer gerðum það fyrst og fremst af því, að vjer töldum ekki rjett að hækka tollinn svona mikið, og í öðru lagi vegna þess, að vjer þóttumst heyra á ummælum háttv. frsm. (G. Ó.), og enda fleiri háttv. þm., að fjárhagsnefnd og mikill hluti háttv. deildar væri mótfallinn hækkun á tollinum.

Jeg skal eigi mótmæla hæstv. fjármálaráðherra (S. E.), að hjer er ekki um eiginlega nauðsynjavöru að ræða og það væri sjálfsagt vel farið, ef enginn notaði tóbak. En vjer verðum að taka tillit til þess, sem er, en ekki þess, sem ætti að vera. Tóbak er allmikið notað af alþýðu manna, og það tóbak, er brtt. ræðir um, nota jafnt fátækir sem ríkir. Tollhækkun þessi mundi draga talsvert þann fátækling, er ekki væri nema meðaltóbaksmaður. Jeg þekki marga, sem þetta gæti numið um 12 kr. á ári.

Með þessari tollhækkun er alls ekki til þess ætlast, að hún dragi úr tóbaksnautn fólks. Það er einmitt ætlast til þess, að tóbak sje jafnt keypt eftir sem áður, og því að eins gæti tollhækkunin náð tilgangi sínum, sem er að auka ríkissjóði tekjur.

Annars skal jeg ekki lengja umræðurnar frekar, en legg brtt. á vald háttv. deildar.