30.07.1919
Efri deild: 18. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

33. mál, tollalög

Magnús Kristjánsson:

Jeg hefi leyft mjer að flytja brtt. á þgskj. 199, við 1. gr., 2. tölulið, um vínanda, sem notaður er til eldsneytis og iðnaðar. Gerði jeg grein fyrir skoðun minni á þessu atriði við 2. umr.

Háttv. frsm. (G. Ó.) lýsti því yfir, að meiri hluti fjárhagsnefndar væri eindregið mótfallinn þessari brtt. Það þykir mjer allundarlegt, þar sem hann þó í öðru orðinu viðurkennir, að nefndin hafi farið gönuskeið og ákveðið tollinn of háan. Það er og hverju orði sannara, því þetta mundi verða 50 kr. árlegur skattur á fjölda heimila í landinu. Jeg tel þetta mjög miklar öfgar og fer eins langt og jeg get, með því að leggja til, að 2 kr. tollur verði lagður á hvern lítra.

Á það var minst um daginn að þessi vörutegund væri mjög misnotuð. Háttv. þm. Snæf. (H. St) hjelt því mjög fram, að tollurinn ætti að vera hár af þeirri ástæðu. Jeg hygg, að erfitt muni vera að sanna þetta, og væri vert að athuga hvort aðrar tegundir sjeu ekki miklu meir misnotaðar. Auk þess er þetta algerlega óframbærileg ástæða. Ef vissa væri fyrir því, að menn drykkju þessar tegundir eitthvað að ráði, þá er það skylda lögreglunnar að sjá svo um, að þær væru í raun og veru gerðar óhæfar til drykkjar, svo sem lög mæla fyrir. Það er vegurinn til þess að koma í veg fyrir misnotun, en ekki að leggja háan toll á vöruna.