30.07.1919
Efri deild: 18. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

33. mál, tollalög

Halldór Steinsson:

Fjárhagsnefnd var þess fyllilega meðvitandi, hvað hún var að gera, þegar hún samdi brtt. á þgskj. 197.

Það varð að ráði að leggja það til, að tollurinn af ilmvötnum skyldi vera 4 kr. á lítra, einmitt af þeirri ástæðu, að þá þótti heldur von til, að tollurinn á suðuspíritus yrði ekki lækkaður.

Hv. þm. Ak. (M. K.) berst fyrir því, að fá tollinn lækkaðan, og gerir mikið úr því, að suðusprittinun sje varið til iðnaðar; taldi hann, að hjer væri um 50 kr. eyðslu að ræða á hvert heimili. Mjer hygg jeg, að hann hafi farið upp í maximum. Það geta verið til heimili, sem svo mikið nota, en að meðaltali hygg jeg að eyðsla þessa efnis fari ekki fram úr 10–20 kr. á hvert heimili. Það mun láta nærri, að allur þorri heimila brúki að eins 2–4 flöskur um árið: það er að eins í hinum stærri kaupstöðum sem suðuspritt er brúkað til allskonar hitunar, en annarsstaðar ekki.

Sami hv. þm. (M. K.) dró það í efa, að suðusprittið væri misbrúkað. Jeg held að háttv. þm. hljóti þó að vera það kunnugt, eins og mjer að einmitt svo er, og af því að hjer er um eitur að ræða, og það mjög skaðlegt eitur, þá virðist rjett að reyna að fyrirbyggja þessa misbrúkun með því að greiða háan toll af þessari vöru. Misbrúkunin verður ekki útilokuð með auknu eftirliti, enda er og þegar eftirlit með þessu, þar sem suðuspritt er gert óhæft til drykkjar: það yrði aldrei gert svo óhæft til drykkjar, að ekki yrði það drukkið samt. Það er svo, að þegar menn hafa vanið sig á eitur, þá veitir mönnum erfitt að venja sig af því aftur.

Jeg tel sjálfsagt fyrir deildina að ganga að till. fjárhagsnefndar.