04.08.1919
Neðri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

33. mál, tollalög

Jörundur Brynjólfsson:

Þegar jeg veitti eftirtekt, hve hátt gjald hv. Ed. lagði á suðuspíritus, þótti mjer það mjög svo órjettmætt. Hinu undrar mig þó meira á að hv. fjárhagsnefnd þessarar deildar skuli, af ótta fyrir, að Ed. felli frv., ef því verður breytt, þó ekki sje nema þessu atriði, gera þetta að kappsmáli. Jeg get með engu móti sætt mig við þetta atriði óbreytt. Hins vegar játa jeg, að illa væri farið, ef breytingin yrði til þess, að frv. næði ekki fram að ganga í Ed. Að vísu væri það ekki sök Nd. En jeg hygg, að Ed. hugsi sig um tvisvar, áður en hún fellir frv. fyrir það, þótt þessi litla breyting verði gerð. Þessi skattur verður fátækum almenningi, einkum í kauptúnum, mjög tilfinnanlegur. Brensluspíritus kostar nú 3–4 kr. hver lítri. Það er svo hátt verð, að ekki er gerlegt að leggja 2 kr. skatt þar á. Jeg vil sem best styðja brtt. hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og vænti, að hv. fjárhagsnefnd ljái lið, svo breytingin nái fram að ganga.