04.08.1919
Neðri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (345)

33. mál, tollalög

Magnús Pjetursson:

Mig furðar á því, hve ill áhrif orð mín höfðu á sessunaut minn, hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), því að jeg finn eigi, að nokkuð það hafi komið fram í ræðu minni, er gæfi honum ástæðu til að tala svo geyst, sem hann gerði.

Það er misskilningur hjá hv. þm. (M. Ó), að tollur þessi komi eingöngu niður á mönnum við sjávarsíðuna. En við það miðast mótstaða hans. Það er mjög farið að tíðkast í sveitum að nota prímusa og um engjaslátt má telja, að þeir sjeu mjög mikið notaðir sumstaðar þar sem jeg þekki til.

Hv. þm.(M. Ó.) sagði, að verið hefði meir af vilja en mætti samanburður minn á hreinum vínanda og brensluvínanda. Þó tókst hv. þm. (M. Ó.) allófimlega að hrekja þennan samanburð minn. Hann vildi gera þann mismun á þessum tveim tegundum, að hreinn vínandi væri tekinn inn í smáskömtum, en hinn tæki eldurinn í stórskömtum. En þegar að er gáð, þá má ætla að á prímus fari og þar er hann aðallega notaður ein matskeið í senn af brensluspíritus, segjum þrisvar á dag, og er það líkt og gerist og gengur með meðalainntökur.

Hv. þm. (M. Ó.) bar ekki við að hrófla við samanburði mínum á notkun hinna tveggja vínandategunda til iðnaðar, enda mundi honum hafa veitt erfitt að fetta fingur út í hann.

Jeg þarf ekki að svara neinu verulegu hinni stuttu (!) athugasemd hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) enda var ekki við að búast að hann gæti komið að í henni miklu svaraverðu. Hv. þm. (G. Sv.) tók það fram, að jeg mundi eingöngu bera fyrir brjósti hreinan vínanda. Framkoma mín sýnir best, hvort svo muni vera, þar sem jeg hefi ekki tekið til máls nje kvartað yfir hinni stórfeldu tollhækkun á honum. — Það er ekki rjett að draga það út úr orðum mínum, að jeg sje með því, að málið sje tekið út af dagskrá; jeg er því með öllu mótfallinn.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um ræðu hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) nje kasta hnútum í hann, þótt auðvelt sje, svo að hann þurfi ekki að biðja um orðið í fjórða sinn í þessu máli. Það lítur annars nærri því út, eins og hv. þm. (G. Sv.) hafi öðlast eitthvert einkaleyfi til að brjóta að ósekju 35. gr. þingskapanna.