21.07.1919
Efri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í C-deild Alþingistíðinda. (3524)

36. mál, útflutningsgjald af síld

Magnús Torfason:

Jeg hefði óskað þess, að hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) hefði sparað sjer það, sem hann sagði síðast, því með því gerði hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) sitt til þess að eyðileggja tekjuauka landssjóðs. (Fjármálaráðh.: Hvaða tekjur?). Landafurðatekjuliðinn, og jeg held, að mjer hafi ekki misheyrt, að hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) hafi lagt á móti honum. (Fjármálaráðh.: Alger misheyrn). Jeg þóttist leggja eyrun við, og jeg ætlaði ekki að gleyma því og kröfum þessa frv.

Það má ekki hafa þetta útflutningsgjald með öðru útflutningsgjaldi, heldur verður að hafa sjerstök lög um það. Og jeg skil það vel, því þetta gjald er lagt á einstök hjeruð, þvert á móti þeirri stefnu, sem gildir um allan hinn mentaða heim, um gjöld af afurðum landsins. Gjald þetta hefir yfirleitt komið niður sem verslunargjald. Með lagafrv. stjórnarinnar á að sýna síldinni þann heiður, að henni er offrað sjerstökum lögum, og með þeim er henni gefin sú sjerstaða, að þótt breyting verði gerð á útflutningsgjaldslögunum, yrði engin breyting á þessum lögum því samfara, og hins vegar.

Við verðum að krefjast þess, að síldin sje undir sömu lögum og aðrar afurðir landsins.

Jeg tók eftir því, að hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) kvartaði undan því, að menn hefðu grætt á síldinni, en jeg skil það atriði á aðra lund. Að menn græði tel jeg ekki í sjálfu sjer böl, og síst fyrir þennan atvinnuveg, þegar jafnmiklu á að demba á hann af sköttum eins og ráð er fyrir gert. Og að minsta kosti getur það ekki talist böl fyrir hæstv. fjármálaráðherra (S. E.), sem er að stritast við að fylla landssjóðshítina.

En jeg vil benda á, að öllum má ofgera, og að það má sliga klárinn. Það verður að athuga, að talsverðar álögur eru komnar á síldina, þó að álögurnar, sem þetta frv. fer fram á, bætist ekki ofan á. Tekjuskatturinn legst sjerstaklega á þennan atvinnuveg, ef gróði er verulegur. Útflutningsgjaldið á að hækka. Svo er stimpilgjaldið, sem er verðtollur. Landsverslunin hefir einokun á kolum, sem þessi atvinnuvegur þarf mikið af, og er það ekki óverulegur skattur. Nd. hefir til meðferðar frv. um skatt á salti, sem mjög kemur niður á þessum útveg, og loks er 5 kr. innflutningstollurinn á tunnum. Þar fjekk landssjóður ríflegar tekjur fyrirfram. Jeg sje ekki eftir því, en hefi viljað benda á, að síldin mjólkar landssjóði drjúgan skerf. Mjer virðist því ekki hægt að hafa á móti því, þótt nú sje um stund látið staðar numið og beðið með að hækka gjöldin, og þetta skilst mjer að fleirum finnist, þar sem þessi lög eiga ekki að ganga í gildi fyr en 1. april 1920. Jeg skil því ekki, hvað liggur á. Jeg er hv. þm. Ak. (M. K.) alveg samdóma, og mjer finst síst anda köldu frá honum móti frv., þótt hann reyni að koma vitinu fyrir menn og haga öllu á skynsamlegan hátt. Það er alt annað mál, þar sem athugasemdir hans koma nú við 1. umr., heldur en ef þær hefðu beðið þangað til við 3. umr.