08.07.1919
Neðri deild: 4. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (699)

8. mál, mat á saltkjöti til útflutnings

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Síðan áhugi manna fór að vaxa hjer á landi fyrir því, að hafa sem vandaðasta vöru í öllum aðalgreinum, hefir einnig þeim sem framleitt hafa saltkjöt til útflutnings, verið það hughaldið að fá aðhald frá löggjöfinni, svo að tilraunir þeirra til umbóta mættu bera sem bestan árangur, á líkan hátt og verið hefir með saltfisk, lýsi og ull. Stjórninni þótti því tími til kominn að bera fram frv. þetta um mat á saltkjöti til útflutnings.

Það skal tekið fram, að frv. þetta er að miklu leyti lagað eftir ullarmatslögunum, og hefir stjórnin einnig leitað til fjelaga þeirra, er óskað hafa eftir lögum um þetta efni og farið eftir reynslu þeirra og þekkingu í ýmsum greinum.

Þar sem athugasemdir alllangar fylgja frv., skal jeg láta nægja að vísa til þeirra um einstakar greinar frv.

Vil jeg svo óska þess, að málið fái að ganga til 2. umr. og til landbúnaðarnefndar.