05.08.1919
Neðri deild: 25. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Sigurður Sigurðsson:

Jeg hafði hugsað mjer að gera stuttar athugasemdir við einstaka liði í þeim brtt., sem fram eru komnar. Og jeg geri ráð fyrir, að þær athugasemdir mínar gefi tilefni til skýringa hjá hv. frsm. (M. P.).

Þá er það fyrst viðvíkjandi 1. lið, um landhelgisgæsluna. Það er síður en svo, að jeg ætli að mæla móti liðnum í sjálfu sjer. En að eins vildi jeg geta þess, er jeg hefi fyrir satt, að það er einkennilegt, hvernig þessu fje hefir verið ráðstafað, eða hvernig bátarnir hafa verið valdir til landhelgisgæslunnar. Jeg hefi sem sje heyrt það úr áreiðanlegum stað, að það hafi verið boðinn fram bátur með lægra tillagi en það tilboð var, sem gengið var að. Það tilboð, sem var hafnað, var 8 þús. kr. á mánuði, í staðinn fyrir 10 þús. kr., sem tekið var. Og mun þó sá bátur í engu hafa verið lakari en hinn. Jeg er ekki að segja þetta til að víta hv. fjárveitinganefnd. En það lítur út fyrir, að ekki hafi verið gert útboð í raun og veru, heldur hafi samningar um bátana farið fram á bak við tjöldin. Mjer hefir verið sagt, að einn meðeigandi í öðrum bátnum, sem tekinn var, eigi sæti í útflutningsnefndinni. Þetta er dálítið kynlegt og gefur ástæðu til að ætla, að það gerist margt skrítið í skjóli þessarar útflutningsnefndar, sem almenningi ekki er kunnugt um. Þetta væri nauðsyn á að rannsaka, þó jeg búist varla við, að það verði gert til hlítar. Og sje þetta rjett, sem jeg hefi frá góðum heimildum, þá sýnast samningarnir við þessa bátaeigendur dálítið undarlegir.

Þá kem jeg að öðru atriði, er jeg vildi drepa á, og það er listasafnshús Einars Jónssonar. Jeg ætla mjer heldur ekki að mæla móti þessari fjárveitingu. Hún er sjálfsagt nauðsynleg, eins og hv. frsm. (M. P.) sagði. Að eins vildi jeg beina þeirri spurningu til nefndarinnar. hvort þeir menn, sem lofuðu fje til byggingarinnar, hafi staðið við heit sín. Annars lítur nú út fyrir, að þessi bygging ætli að verða talsvert dýr. Og það er ekki laust við, að hún hafi farið dálítið fram úr því, sem hv. þm. Dala. (B. J.) áætlaði hjer um árið, þegar hann sagði, að hún mundi ekki þurfa að kosta nema 600 krónur.

Þá ætlaði jeg í þriðja lagi að gera stutta athugasemd viðvíkjandi brimbrjótnum í Bolungarvík. Það er ekki tilgangur minn að mæla beinlínis móti þeirri fjárveitingu. En jeg get ekki stilt mig um að láta þess getið, sem öllum er kunnugt, að það hefir gengið æðiskrykkjótt með þennan brimbrjót. Fyrir skömmu síðan hrundi eitthvað úr honum. Og það hafa kunnugir sagt, að þetta verk mundi vera mishepnað frá upphafi, og að brimbrjóturinn væri ekki bygður á þeim stað, sem æskilegt hefði verið. Jeg ætla mjer ekki að dæma um, hvort þessir menn hafa rjett fyrir sjer. En það væri fróðlegt að fá að vita, hvort þessi fjárveiting er ætluð til þess, að byggja aftur upp það, sem hrundi, eða hvort hún á að ganga til áframhalds á verkinu. Um þetta verk ganga annars margar sögur. Og allar benda þær til þess, að eins og stofnað var til verksins í byrjun, muni það ekki koma að tilætluðum notum. Sjálfur fullyrði jeg ekkert um þetta, heldur „referera“ jeg að eins álit annara kunnugra manna.

Þá kem jeg loks að tillögu minni á þgskj. 207. Jeg bjóst að vísu naumast við því, að hún mundi fá góðar undirtektir hjá hv. fjárveitinganefnd, samkvæmt þeim yfirlýsingum, sem hæstv. ráðherrar gáfu í ræðum sínum. Jeg skal þegar skýra frá því, að við flutningsmenn tillögunnar fluttum hana mest vegna þess, að þeir menn, sem hjer áttu hlut að máli, þóttust hafa búið svo um hnútana, að hæstv. stjórn mundi sjálf að líkindum koma fram með brtt. um ívilnun í þessa átt. Það voru þeir hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) og fjármálaráðherra (S. E.). Enda hefir hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) kannast við þetta. Við flutningsmenn hjeldum, að þeir góðu ráðherrar hefðu gleymt að flytja tillöguna, og ætluðum að mæta þeim á miðri leið og bæta með því úr skák fyrir þeim. Hv. frsm. (M. P.) gat um í ræðu sinni, að ýmsir mundu á eftir fara, sem ættu jafnt tilkall til uppbótar á flutningskostnaði við fóðursíld. Hv. þm. (M. P.) á hjer auðvitað ekki við þingmannasíld. (M. P.: Nei, landssjóðssíld.) En ef hann á við landssjóðssíld, sem jeg geri ráð fyrir, þá get jeg frætt hann á, að engir hafa orðið jafnhart úti og þeir austanfjalls. Það var ekki hægt að skipa síldinni upp á Eyrarbakka og Stokkseyri, heldur varð að flytja hana hingað suður. Svo urðu þeir að leigja mótorbát undir síldina austur aftur, og við það lagðist 7 kr. kostnaður á hverja tunnu. Á þessa síld hefir þannig lagst 7 kr. skattur fram yfir aðra síld, sem t. d. var flutt á „Willemoes“ eða öðrum landssjóðsskipum. En auðvitað tjáir ekki að deila við dómarann. Hv. fjárveitinganefnd hefir ekki viljað líta við þessum sanngjörnu kröfum Árnesinga og Rangæinga. Og við því er ekkert að gera. En þessi krafa mun eiga meiri rjett á sjer en flestar aðrar. Síldin, sem flutt var til Víkur og Vestmannaeyja, kostaði ekki nema 20 kr. tunnan. En þessi umrædda síld kostaði 27 kr. tunnan. auk talsverðs flutningskostnaðar langt upp í sveitir. Þeir menn sem einkum beittu sjer fyrir að tala við hæstv. stjórn og fóru fram á að fá þessa ívilnun, voru formaður smjörbúasambandsins og búnaðarsambands Suðurlands, þeir Ágúst í Birtingaholti og Guðmundur Þorbjarnarson á Stórahofi. Þeir bera það, að hæstv. ráðherrar hefðu tekið vel undir þetta. Og eins og jeg sagði, hefir hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) kannast við það. Hefi jeg því ekki meira við hann að athuga Þeir hermdu að vísu ekki bein loforð eftir þeim. En þeir menn voru til áður fyr, sem voru svo vandir að virðingu sinni að fyrir þeim var hálfkveðin vísa jafngild loforði. Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) fylgir ekki þeirri reglu, en hann hefði vafalaust gott af að temja sjer hana. Hann hefir fyrir sið að vera mjúkur á manninn og lofa öllu fögru. En þegar til kastanna kemur, skýst hann undan því, að jeg ekki segi svíkur alt saman. Það væri affarasælla, ef þessi hæstv. ráðherra (S. E.) temdi sjer að segja færra og lofa minnu, en efna aftur betur það, sem hann hefir gefið ádrátt um. Að vísu var jeg ekki áheyrandi, þegar þessir menn, er jeg nefndi, áttu tal við hæstv. ráðherra. En eftir þessari reynslu væri full ástæða til að hafa menn með sjer, þegar maður talar við þá um áríðandi mál, sem ekki er sama hvernig fer um.