20.02.1920
Efri deild: 7. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

28. mál, Kjarni og Hamrar undir lögsagnarumdæmi Akureyrar

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Mjer er sönn ánægja að heyra það, að mál þetta er orðið að kappsmáli þar nyrðra, og það af þeim hreppi, er harðast barðist gegn því fyrir einum áratug, að Akureyrarbær fengi jörðina Kjarna keypta. Þykir mjer það því ánægjulegra, sem jeg áður hefi verið við málið riðinn. Og er það ósk mín, að það nái fram að ganga. Salan á Kjarna varð að deilumáli hjer í deildinni fyrir einum áratug, og mun jeg ekki rifja það upp, þar sem allir þeir, er þá sátu hjer, eru horfnir úr deildinni, nema jeg. Það er sagt um sannleikann, að hann eigi stundum örðugt uppdráttar, en sigri þó að lokum. Eins er um vitið, að það er og á stundum nokkuð síðbært. Hjer hefir þó tekist á 10 árum að milda kala þann, er af málinu reis, og skipa því að lokum á vænlegan hátt. Óska jeg hv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.) til hamingju með flutning þessa máls og vona, að frv. nái fram að ganga.