26.02.1920
Neðri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (684)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Bjarni Jónsson:

Jeg skal ekki lengja umræðurnar, því að yfir höfuð get jeg fallist á till. nefndarinnar. Háttv. frsm. (M. P.) hefir tekið fram, hvers vegna þessi hækkun til sendiherrans er nauðsynleg, og finst mjer það illa til fallið af hv. þm. að taka illa í þá fjárveitingu, sem er sú allra minsta, sem hægt er að fara fram á í þessu tilfelli. Jeg álít sjálfsagt að láta þetta fram ganga án nokkurrar deilu eða sundurlyndis, en kann ekki við að ganga þegjandi fram hjá till.

Menn segja, að við höfum ekkert gagn af sendiherra í Kaupmannahöfn, en slíkt tala fávitrir menn og óframsýnir, og að minsta kosti ættu þó allir að sjá, að það er nauðsyn fyrir oss að sýna það heimi öllum, að vjer höfum þó sendiherrarjett.

En hvers vegna draga menn ekki frá kostnaðinn við skrifstofuna, sem þar er og verður. Mismunurinn var á síðasta þingi 4000 kr.; nú ætti hann að hækka upp í 9000 kr. En það er þetta, sem menn tíma ekki að borga, til að gera sjálfum sjer heiður og sýna heiður ríki því, sem landið er í sambandi við. Menn vilja heldur láta Ísland vera sendiherralaust þar. Kostnaðaraukinn er nú ekki meiri en þetta, og hvað hagnaðinn snertir, efast menn um, að nokkurt gagn sje að sendiherranum. Þeir eru að tala um forstöðumann skrifstofunnar, en hann er ófenginn enn; það er ekki til neins að vitna í Jón Krabbe, hann er fenginn til annars starfs. (P. O.: Fleiri störfum hefir þm. gegnt). Fleiru en einu starfi mun hreppstjórinn á Akranesi gegna, og ekki er jeg sá maður, að bera mig saman við þá hamhleypu til orða eða verka, því að hver em ek, at ek líki mjer við Sýrak. Menn eru at tala um Krabbe, og væri auðvitað ágætt að fá hann til að vera sendiherra, en eins og jeg sagði, mun hann hafa öðru starfi að gegna. En er nokkuð á móti því að fara fram á það við fráfarandi ráðherra, að hann taki við því embætti? Hann hefir meiri eftirlaun en nemur auka þeim, sem hjer er farið fram á. Menn þurfa ekki að efast um það gagn, sem af því hlýst að hafa sendiherra í Kaupmannahöfn. Hefði hann verið þar nú fyrirfarið, þá er jeg ekki í neinum vafa um það, að öll síld landsmanna hefði verið seld með stórhag. Hvað húsaleigunni viðvíkur, þá er skrifstofukostnaðurinn jafn hjá sendiherranum og „forstöðumanninum“. Ekki sýnist það vera neinn háski, þó að landið keypti hús handa sendiherranum, því að það mun reynast þar eins og hjer ódýrara heldur en að leigja. Það þarf alls ekki að vera nein höll, gæti verið snotur og smekkleg „villa“. Sendiherranum er ekki ætlað að slá um sig með peningum, heldur að standa sómasamlega í stöðu sinni og gera gagn. Sá siður er nú lagður niður, að sendiherrar haldi sífeldar veislur, og mundi vel nægja, að okkar sendiherra hjeldi eina á ári eða svo. En hafi hann 18 þús. kr., þá getur hann lifað svo, að hann þurfi ekki að verða sjer nje landinu til skammar. En hví kvarta menn svo mjög um, að þessi eini maður sje dýr? Og hvers vegna dettur engum í hug að leita sjer að tekjulindum til að standast þennan kostnað? Jeg veit ekki betur en að allir, sem fara til Noregs, verði að fara til ræðismanns þeirra hjer og láta hann skrifa á vegabrjefin. Hví gæti íslenski sendiherrann í Kaupmannahöfn ekki haft það eins, og haft af því allmiklar tekjur? Þetta dettur mjer í hug nú í svipin. En þeim, sem álíta sendiherralaunin of lág, skal jeg segja það, að fyrir þessa upphæð, sem hjer er um að ræða, skal jeg taka að mjer að rækja þetta starf, og verða hvorki landi nje lýð til skammar. (B. H.: Þú mundir sækja um launauppbót). „Enginn bað þig orð til hneigja“. Sendiherrann myndi engum verða til skaða, heldur mundi með honum mega spara landinu allmikið fje.