27.02.1920
Neðri deild: 16. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Gunnar Sigurðsson:

Jeg skal nú ekki lengja þennan eldhúsdag mikið, en viðvíkjandi brtt. fjárveitinganefndar, að færa bátastyrkinn upp í 80,000 krónur, skal jeg taka það fram, að jeg skoða það alls ekki sem skilyrði, að stjórnin noti þetta fje alt, heldur að eins sem heimild. Jeg legg áherslu á það, að stjórnin bindi sig alls ekki við þær þingsályktunartill. um fjárframlög til bátaferða, sem þegar eru fram komnar, heldur úthluti fjenu þar, sem henni virðist sannsýnilegast og rjettlátast, hvar sem þess þarf við á landinu.

Jeg get ekki stilt mig um að minnast á styrk, sem kjördæmi mitt hefir fengið til bátaferða milli Vestmannaeyja og Landeyjasands. Nýlega hefir verið stofnað kaupfjelag í suðausturhluta sýslunnar, sem ætlar að hafa vöruupplögu í Hallgeirsey í Landeyjum og flytja vörurnar frá Vestmannaeyjum. Þetta er hið mesta þarfafyrirtæki, þar sem aðflutningar á landi eru jafnerfiðir og í Rangárvallasýslu, og vænti jeg þess, að hæstv. atvinnumálaráðherra (P. J.) sjái nauðsynina á því að greiða fyrir þessu og hækka styrkinn talsvert. Það nægir eitt til að sýna fram á, að það er í mesta máta sanngjarnt, að engin sýsla á landinu er jafnilla sett með hafnir og Rangárvallasýsla.