28.02.1920
Efri deild: 17. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (717)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Um þetta, er hjer liggur fyrir, er það að segja, að nefndin hefir átt nokkuð erfitt með að átta sig á því og ekki orðið sammála nema um nokkra liði; atkvgr. er því óbundin.

1. gr. er till. um 5,500 króna launauppbót handa sendherranum í Kaupmannahöfn. Ef sendiherra á að hafa, þá er fjeð ekki nægilegt. En aftur á móti má deila um það, hvort skipa eigi hann strax eða ekki. Ef ekki á að skipa hann á þessu ári, þá er engin þörf fyrir fjárveitinguna. Jeg álít, að ekki eigi að fara að ræða, hvort hann eigi að skipa eða ekki núna, og mun því ekki greiða þessum lið atkv. mitt.

2. liður fer fram á 20,000 króna fjárveitingu til að skipa ræðismann á Spáni eða Ítalíu ef þurfa þykir. Þetta hefir komið frá stjórninni, af því að henni hafði verið tilkynt, að ræðismannsstaðan í Genua væri laus, og Íslandi boðið að skipa þar ræðismann. Annars eru skiftar skoðanir hvort betra sje að hafa ræðismann á Spáni eða Ítalíu. Um fje þetta er það að segja, að svo framarlega sem slíkur maður reynist vel, þá er víst, að það svarar kostnaði að borga þessar 20 þús. kr., þar sem þar eru seldar aðalafurðir landsins. Þessi liður var samþyktur af fjárveitinganefnd. og vil jeg mæla með honum.

Í 3. lið er farið fram á dýrtíðaruppbót af launum, sem eru ákveðin í fjárlögunum handa manni, sem enga dýrtíðaruppbót hefir fengið, og getur ekki fengið eftir launalögunum. Hann hefir verið haldinn mjög illa, setið við sveltulaun, en altaf unnið í þarfir þjóðarinnar. Hann er fjölskyldumaður og á örðugt uppdráttar. Nefndin hefir komist að þeirri niðurstöðu, að rjett væri að samþykkja liðinn, svo hann fengi dýrtíðaruppbót, eins og aðrir starfsmenn landsins. Það væri skrítið, ef þessi eini maður væri settur hjá.

4. liður. Ef þessi liður verður ekki samþyktur, þá mun það, sem hjer er farið fram á, verða veitt af styrk þeim, er Búnaðarfjelagið fær frá Alþingi. Spurningin er þá, hvort skerða eigi styrk Búnaðarfjelagsins eða ekki. Nefndin var sammála um að mæla með þessari fjárveitingu.

5. liður er um viðbót til vjelbátaferða við Ísafjarðardjúp. Í fjárlögunum eru ákveðnar 9 þús. á ári, en eðlilega hefir enginn bátur fengist fyrir svo lítið, þegar öll útgerð er svo dýr. En með því, að þetta fjellu niður, þá fjellu einnig niður póstferðir, sem landinu er skylt að halda uppi. Það er því sjálfsagt að veita styrkinn.

Í sambandi við þetta er hægt að minnast á 8. lið. Þar er farið fram á 80 þús. króna fjárveitingu til ferða á flóum og fjörðum. Hann er þannig til kominn, að fyrirsjáanlegt var, að styrkur, er veittur var með síðustu fjárlögum, hefir fallið niður, og á þessi styrkur að koma í staðinn fyrir hann. Fjárveitinganefnd hefir ekki getað orðið á eitt sátt um liðinn; atkvæðagreiðsla því óbundin. Mjer finst, að ekki ætti að vera áhorfsmál að samþykkja liðinn, því að við höfum altaf verið að sökkva dýpra og dýpra á þessum síðustu og verstu stríðsárum, af samgönguleysi Það verður að álíta, að því fje, er varið er til samgöngumála, sje vel varið. Í sambandi við þetta dettur mjer í hug samtal, er einn af okkar merkustu mönnum átti einu sinni við Englending. Íslendingurinn spyr Englendinginn, hvað það sje, er Íslendinga vanhagi mest um. Englendingurinn svarar: „Samgöngur“. Íslendingurinn spyr, hvað þá vanhagi næst mest um. Englendingurinn svarar: ,.Samgöngur“. Íslendingurinn spyr, hvað þá vanhagi þar næst mest um. Englendingurinn svarar: „Samgöngur“.

Englendingurinn leit svo á, að samgöngurnar væru undirstaðan, og það er alveg rjett; þær eru undirstaða undir þroska atvinnuveganna.

Þá kem jeg að 6. lið. Eins og menn vita, er læknisnemum gert að skyldu að sækja nám til útlanda í yfirsetukvennafræði. Fyr meir höfðu þeir til þess Kommunitetsstyrk, en nú er hann afnuminn með sambandslögunum. Þess vegna er sanngjarnt að veita þennan styrk. Jeg skal geta þess, að úr sáttmálasjóði háskólans geta að eins tveir menn fengið styrk, vegna þess, að þar er ekki um meira fje að ræða. En nú er ráðgert, að 10 læknisnemar þurfi að fara utan. Þessir menn verða að fá styrk, og upphæðin til hvers eins verður síst talin of há eins og hún er sett hjer.

Þá kem jeg að 7. lið, barnakennurunum. Jeg játa, að þetta er vandræðamál. Jeg er alveg samþykkur hv. formanni fjárveitinganefndar (Jóh. Jóh.)um það, að hjer sje með þingsál.till. reynt að breyta lögum og sýnist það vera lítt leyfileg aðferð. Það virðist svo, sem mátt hefði orða till. öðruvísi en svo, að hún væri breyting á lögum. Eins og till. liggur fyrir, er hún svo orðuð, að mjer þykir vafasamt, hvort stjórnin muni taka hana til greina.

Um efni liðsins er það að segja, að nefndin var ekki sammála um það. Sumir voru hlyntir því, og hefir skoðun þeirra við allmikil rök að styðjast, því að sjálfsagt þurfa kennararnir uppbótar. Eftir upphaflegum tillögum stjórnarinnar skyldu kennararnir fá launabót eftir þjónustualdri. En þessu breytti Nd. þannig, að uppbótin var að eins ætluð föstum kennurum. Til þess að bæta úr misfellum, sem af þessu leiddu, var þessi till. borin fram í Nd., og liggur hjer fyrir yfirlýsing flutningsmannsins um það, að till. hafi verið heldur ætluð til þess að herða á því, að launabæturnar væru reiknaðar eftir þjónustualdri.

Jeg fyrir mitt leyti er nú á þeirri skoðun, að stjórnin hafi ekki getað hagað sjer öðruvísi í þessu máli en hún hefir gert. En hins vegar er málið svo mikið vandræðamál, að jeg hygg, að ekki verði hægt að gera neina ályktun um það fyr en stjórnin hefir tekið það til gagngerðrar athugunar.

Atkvæði nefndarmanna um þennan lið eru því alveg óbundin.