18.04.1921
Neðri deild: 46. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (1434)

45. mál, Sogsfossarnir

Forsætisráðherra (J. M.):

Það var út af ummælum háttv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.), að jeg vildi minna á þá sömu skýrslu, sem háttv. frsm. (Sv. Ó.) talaði um. Jeg gaf hana þm. í fyrra og fjrh. fjekk hjá mjer öll skjöl viðvíkjandi því máli. Þó tók fjármálaráðherra mjer vitanlega enga ákvörðun um þetta, en mjer hefir verið sagt, að nefndinni hefði þótt boðið ekki aðgengilegt. Það sást á reikningum, sem þá lágu fyrir nefndinni, að fjelagið taldist hafa greitt meira en frsm. minni hl. (Sv. Ó.) gerði ráð fyrir, um 200 þús. kr. auk vaxta. Hve há upphæðin var, man jeg ekki, en hún var miklu meiri. Og nú hefir fjelagið enn endurnýjað tilboð sitt um að selja rjettindi sín, aðeins þannig, að fjelagið fái það fje, sem það hefir greitt, með vöxtum. Jeg hygg, að hægt, muni að komast að samningum við fjelagið, og ef samningarnir reynast ekki aðgengilegir, þá má taka rjettindin eignarnámi, ef ráðið er að virkja. Og jeg verð að segja, að jeg skil ekki vel, hvers vegna háttv. frsm. (Sv. Ó.) vill fella þetta frv., úr því að hann telur stjórnina hafa heimildina í þál. frá 1919. Ef þetta frv. væri felt, þá stæði þál. eftir hans skoðun í fullum krafti. Hitt er miklu skýrara, að hafa heimildina í lögum, fyrir utan það, sem jeg oft áður hefi tekið fram, að jeg tel fjárveitingar í þá, mjög athugaverðar og óheppilegar. Jeg held, að ekki sje hætta á því, að litið verð öðruvísi á það, hvers virði fossarnir sjeu, fyrir og eftir rannsóknina. Og mjer kæmi það mjög á óvart, ef frv. yrði felt, því að það sýnist sjálfsagðast af öllu, úr því búið er að tala svo mikið um þetta mál, að fá nú fullkomna vissu um það, hve mikið virkjun fossanna muni kosta. Og jeg held að það sje alveg óþarfur ótti, að vilja ekki láta rannsaka fossana af því, að þá vilji fossafjelagið „Ísland“ fara að virkja. Sá tími er löngu liðinn, getur að vísu breytst, en eins og nú stendur er engin ástæða til ótta. Jeg vona, að það komi ekki til, að þetta frv. verði felt. Það bæri ekki vott um mikinn áhuga á þessu stórmáli og kæmi illa heim við það, hvernig þingið hefir stutt rannsóknir annarsstaðar á landinu.