07.03.1921
Neðri deild: 16. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

16. mál, sala á hrossum

Gunnar Sigurðsson:

Hæstv. atvrh. (P. J.) hefir best sannað, að allur dráttur í máli þessu er hættulegur. Jeg þykist geta af reynslu talað í máli þessu, og jeg veit að oft hefir svo farið, að í ótíma hefir verið hugsað um hrossamarkaðinn. Það verður að fara að semja um sölu áður en svörin eru komin frá sýslunefndunum. Þessi svör geta líka orðið svo margvísleg, ekki hægt að búast við, að allir verði þar á eitt sáttir, svo alt slíkt getur tafið fyrir framkvæmdum stjórnarinnar og teflt málinu í tvísýnu. Enda álít jeg að ekki geti komið til mála, að sýslunefndir skifti sjer neitt af sölunni erlendis.

Það eru mörg ónauðsynlegri embætti í landinu en þótt hafður væri beinlínis maður til þess að undirbúa hrossasölumálið, safna tilboðum erlendis og yfir höfuð gera alt til að glæða markað og greiða fyrir sölu. Eins og nú standa sakir, er einkasalan heppilegust leið. Af framantöldu greiði jeg atkv. móti því nú að skjóta máli þessu til sýslunefnda, þótt jeg segi ekki með því að slíkt megi gera í framtíðinni, en þó að eins að því er snertir kaup á hrossunum og meðferð innanlands.