07.03.1921
Neðri deild: 16. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1666 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

65. mál, biskupskosning

Flm. (Sigurður Stefánsson):

Eins og hv. þd. mun kunnugt, lá mál þetta fyrir aukaþinginu 1920. Frv. Var þar vísað til stjórnarinnar, og hefir biskup síðan borið það undir synodus og hjeraðsfundi.

Í umræðunum um frumvarpið 1920 var það tekið fram, að hjer væri að ræða um upptöku gamals og góðs siðar, þess, að prestar kysu sjer biskup. Hefði sá siður haldist hjer frá fyrstu tímum kristninnar og fram um miðja 17. öld, er norðlenskir prestar kusu sjer biskup að Hólum í síðasta sinn.

Sögu þessa máls rakti jeg rækilega á síðasta þingi, og læt jeg mjer nægja að vísa til þess, sem jeg sagði þar. Tel jeg nú sem þá, að ekki sje um stóra breytingu að ræða í kirkjunnar löggjöf, þó frv. nái fram að ganga, nje heldur, að ríkið sleppi mikilsverðum rjettindum, þótt það leyfi kirkjunni þessa hlutdeild um biskupskosningu.

Mjer finst það ekki nema sjálfsögð kurteisi við kirkjuna að veita henni hlutdeild í slíku máli, úr því það er ríkinu að skaðlausu.

Frumvarpið hefir síðan verið lagt fyrir hjeraðsfundi. Hafa 13 hjeraðsfundir sent álit sitt, og eru þar af 11 frv. fylgjandi. Þess skal getið, að frv. var lagt fyrir hjeraðsfundina áður en það kom fyrir synodus, og hafa því þær breytingar, er synodus gerði á frv., ekki komið undir úrskurð hjeraðsfunda.

Afskifti synodusar af málinu voru þau, að hún aðhyltist meginstefnu frv., þá, að andlegrar stjettar menn kysu biskupinn, en gerði þó þá breytingu á frv., að biskupinn skyldi ekki kosinn af prestum landsins beinlínis, heldur af kjörmönnum; einum kosnum af prestunum í hverju prófastsdæmi og einum af guðfræðideild háskólans, eða 21 manni alls. Skyldi ríkissjóður greiða ferðakostnað kjörmanna á kjörfund og kosta fundahaldið.

Jeg neita því ekki, að þessar breytingar hafa nokkuð til síns máls. En jeg óttast hins vegar, að það geti orðið nokkur grýla í augum manna, að ríkissjóður skuli eiga að borga ferðir og fundahöld þessara kjörmanna, þótt slíkt geti aldrei orðið tilfinnanleg útgjöld, því slíkir fundir mundu verða fáir.

Þá vil jeg og benda á það, að vel getur það fyrir komið, að þessir kjörfundir verði ekki svo fjölmennir sem þarf, og gætu því orðið þýðingarminni, þannig, að ríkisstjórnin yrði að skipa biskup eftir sem áður. Hitt, að hver prestur tilnefni biskupinn heima hjá sjer, er ofureinfalt, og ólíklegt, að nokkur prestur mundi undan því skorast eða láta slíkt undir höfuð leggjast.

Jeg hefi sniðið þetta frv. eftir því fyrirkomulagi, sem nú er í þessum efnum í nágrannalöndum vorum, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, þar sem þessi breyting er komin. Hver prestur tilnefnir þar þrjá menn, er hann telur hæfasta til biskupstignar. Sá, sem flest fær atkvæðin, hlýtur stöðuna, en ef atkvæði verða jöfn, sker veitingarvaldið úr.

Þessu fyrirkomulagi er haldið í frv. mínu, en þó með þeirri breytingu, að 3/5 atkvæða þurfi sá að fá minst, til þess, að geta orðið rjett kjörinn biskup samkvæmt frumvarpinu.

Ef áhuginn meðal prestanna er svo lítill, að slíkur meiri hluti fæst ekki, tel jeg rjett, að veitingarvaldið veiti embættið. En jeg geri ráð fyrir, að slíkt komi ekki fyrir.

Auk þess, að frv. þetta er í fullu samræmi við gildandi löggjöf um kosningu presta og prófasta, þá sje jeg aðra ástæðu fyrir því, að rjett sje, að frv. gangi fram, og það er fyrir mjer aðalástæðan. Eins og nú er komið kirkjumálum vorum, þá eru nú, eins og menn vita, uppi hjer fleiri en ein stefna í trúmálum. Nú má gera ráð fyrir því, að stjórnin fylgi einni þessari trúmálastefnu, og það, ef til vill, þeirri stefnunni, sem er fámennari. Væri þá ekki vel til fundið, að sú stjórn rjeði ein veitingu biskupsembættisins í landinu. Einnig má líta á það, að það er mjög áríðandi fyrir trúmálin, að sá maður, sem þar er til forgöngu valinn, hafi óskorað traust meiri hluta hinnar andlegu stjettar landsins. Þetta getur brugðist, ef stjórnin skipar biskupinn, þótt ekki hafi það verulega komið að sök hingað til.

Þar sem nú prestar landsins hafa farið með þetta vald öldum saman, en erlend stjórnarvöld dregið það úr höndum þeirra, þá sýnist mjer harla undarlegt, ef þingið getur ekki fallist á, að þessi rjettur sje prestunum aftur fenginn. Og ef frv. verður ekki samþ., get jeg ekki öðruvísi litið á en að í því felist vantraust á prestastjettina, þannig, að henni sje nú ekki lengur treyst til að fara með það vald, er forfeðurnir höfðu.