18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1674 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

65. mál, biskupskosning

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) fann frv. margt til foráttu, og þar á meðal að það miðaði að því að gera kirkjuna ríki í ríkinu.

Jeg held að þetta sje nú helst til fljótfærnislega athugað, því frv. gerir í engu breytingu á því sambandi, sem nú er milli ríkis og kirkju; fjelagslegt sjálfstæði kirkjunnar gagnvart ríkinu jafnt eftir sem áður.

Þá fanst mjer það illa fallið hjá háttv. þingmanni (Jak. M.) að spá því, að biskupsefni mundu mest hugsa um að „gera sínar hosur grænar“ hjá prestum, til þess að ná kosningu, og jafnframt fljótfærnislega sagt, því þetta mundi sennilega þýðingarlaust fyrir biskup; en ef líklegt þætti, að það orkaði einhverju, þá væri ástæða til að athuga það, hvort þetta mundi ekki eiga sjer stað nú við prestskosningar, þar sem söfnuðirnir kjósa sjer presta, en jeg þekki þess ekki dæmi, að prestar hafi gert það. Hitt finst mjer í engu ámælisvert, þó prestar vilji vekja eftirtekt safnaðanna á sjer, þegar þeir eru í kjöri, með framkomu sinni. Skil jeg ekki að það geti gert þá að neinu háðari söfnuðinum, nje leitt til þess, að þeir vanræki embætti sitt. Hygg jeg sama mundi verða uppi á teningnum með biskupinn.

Háttv. þm. (Jak. M.) færði það líka fram, sem ástæðu móti frv., að prestar væru afturhaldssamir. Þetta er nú ekki óvanalegt hjá svo kölluðum framsóknarmönnum, að halda því fram, að prestar sjeu á eftir tímanum.

En þeir, sem hafa kynt sjer kirkjusögu Íslands, fella ekki þennan dóm. Sagan sýnir, þvert á móti, að prestastjettin hefir verið þjóðhollasta og frjálslyndasta embættismannastjett þessa lands.

Og jeg mótmæli því, að prestar hafi verið á eftir tímanum, og get bent á fjölda presta, sem hafa verið fyrirmynd annara manna í framsækni og borgaralegum dygðum. Og það er ekki aðeins kirkjusagan, sem sannar þetta, heldur og álit og ummæli fjölda af merkustu og mikilhæfustu vísindamönnum, erlendum og innlendum. Get jeg þar til dæmis nefnt Þorvald Thoroddsen, sem getur þess bæði í ferðasögu sinni og landfræðisögu, hversu mikilli þakkarskuld þjóðin standi í við íslensku prestastjettina.

Jeg skal nú ekki draga neina ályktun af þessu um það, hvernig prestastjettin nú er, en þó hygg jeg, að henni sje eigi svo aftur farið, að rjett sje að telja þá á eftir tímanum. Auðvitað er það, að til eru íheldnir menn innan hennar, en það er í öllum stjettum. Get jeg eigi varist þess að líta svo á, ef frv. þetta nær eigi fram að ganga, jafnmeinlaust og það er, þá sje með því lýst vantrausti á andlegu stjettina, og henni gert lægra undir höfði en söfnuðunum. Sýnist mjer það ómaklegt, því að enda þótt biskupar hafi verið góðir hjer, allflestir, síðan stjórnin skipaði þá, þá voru margir þeirra engu minni ágætismenn meðan andlega stjettin kaus þá, áður en erlenda valdið kom til sögunnar og svifti andlegu stjettina þessum sjálfsagða rjetti hennar.

Háttv. þm. Borgf. (P. 0.) skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara, en ástæður hans eru alt aðrar en háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.). Hann er því fylgjandi, að biskupsembættið verði lagt niður.

Þetta hefir nú áður komið til umr. á Alþingi, en náði þá ekki fram að ganga. Hann gerði ráð fyrir því, að breytingin væri í aðsígi. Jeg er nú ekki þeirrar skoðunar; en þó svo væri, þá er þetta frv. því ekki til fyrirstöðu. Þar sem um engan kostnað er hjer að ræða, get jeg því eigi skilið það á annan veg, ef frv. fjelli, en með því væri lýst vantrausti á prestastjett þessa lands.

Talið um, að biskupskjörið mundi ver takast í hennar höndum en stjórnarinnar, er út í bláinn.

Ef þetta frv. hefði í för með sjer aukinn kostnað fyrir ríkið, þá hefðu mótbárurnar gegn því við dálítil rök að styðjast. En kosningunni fylgja engin aukin útgjöld fyrir ríkið.