10.03.1921
Neðri deild: 19. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (1706)

78. mál, sala á landspildu

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg get verið stuttorður um þetta frv. Mjer hefir verið send sú málaleitun úr Blönduósshreppi, að fara þess á leit við stjórnina, að hún seldi þetta land, og jeg hefi átt tal um það við hana, en hún hefir ekki sjeð sjer fært að selja landið, án sjerstakra laga. Að öðru leyti tók stjórnin vel í málið.

Jeg þarf ekki að ræða um nauðsyn þessa frv. Hún er skýrt tekin fram í álitsskjali því, er hjeraðsprófastur, sem jafnframt er umráðamaður landspildunnar, hefir sent þinginu, og hefi jeg þar engu við að bæta.

Það hefir verið venja að vísa líkum málum og þessu til nefndar, og er þá eðlilegast, að þetta frv. fari til landbúnaðarnefndar, og getur hún þá fengið allar þær upplýsingar málinu viðvíkjandi, sem henni þykir þurfa. Geri jeg það því að tillögu minni, að þessari umr. lokinni.