29.03.1921
Neðri deild: 29. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (1715)

78. mál, sala á landspildu

Jón Baldvinsson:

Út af ummælum hæstv. fjrh. (M. G.) vil jeg geta þess, að mjer er kunnugt um það, að landsstjórnin hefir í afsalsbrjefi við sölu lóðarbletts hjer í Reykjavík, sem var eign landssjóðs, sett skilyrði á svipaðan hátt, og hafa lóðir verið seldar með sjerstökum skilyrðum, eins og jeg talaði um, þannig að aðeins mætti nota þær í sjerstöku augnamiði. Samkvæmt því ætti stjórnin líka hæglega að geta sett slík skilyrði. Annars sje jeg ekki ástæðu til þess að gera þetta að því kappsmáli, að greiða atkv. á móti frv., þar sem hjer er aðeins um að ræða sölu til hrepps.