11.04.1921
Efri deild: 40. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1694 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

78. mál, sala á landspildu

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Eins og tekið er fram í nál. á þskj. 277, hefir nefndin fallist einróma á frv. þetta, með örlítilli breytingu, er hún gerir við frv.

Alþingi hefir ávalt fallist á að selja sveitarfjelögum og kauptúnum jarðir, er þau hafa falast eftir þeim til eigin nota og haft sýnilega þörf fyrir, og eins þeir, er mótfallnir hafa verið þjóðjarðasölu til einstakra manna.

Hjer er nú ekki farið fram á að selja heila jörð, heldur aðeins fremur litla landspildu, móland og beitiland, sem kauptúnið hefir notfært undanfarið. Þessi spilda var undanskilin, er Hjaltabakki var seldur fyrir nokkrum árum, einmitt með það fyrir augum, að Blönduósskauptún fengi hana til afnota og eignar síðar.

Brtt. sú, er nefndin gerir við frv., um að 2. gr. þess falli burt, er samskonar og brtt. sú, er gerð var við frv. um sölu á jörðinni Upsum hjer á dögunum og háttv. deild samþykti. Er óþarft og óviðkunnanlegt að láta greinina standa, því að ákvæði hennar eru í lögum um sölu kirkjujarða.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um mál þetta, en vil að lokum benda háttv. þm. á ummæli hjeraðsprófastsins í Húnaþingi, er prentuð eru sem fylgiskjal með frv., og vænti, að þeir ljái frv. samþykki sitt.