18.04.1921
Efri deild: 46. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1737 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

86. mál, samvinnufélög

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Þetta mál, sem hjer er til umræðu, hefir nokkuð verið skýrt í hinni upphaflegu greinargerð, sem fylgdi frv., í flutningsræðu, og og nú síðast í nál. En þó er tæplega gerð full grein fyrir sumum aðalatriðum þess enn, og vil jeg því leyfa mjer að fara um það nokkrum orðum, sjerstaklega þá hliðina, sem veit að sjóðstofnunum samvinnufjelaganna og skattamálum.

Sjóðstofnanir samvinnufjelaganna skiftast aðallega í tvent, sjereignarsjóði og sameignarsjóði. — Sjereignarsjóðirnir eru eign einstakra manna, og eru, jafnframt því að vera veltufje fjelaganna, trygging fyrir viðskiftum hlutaðeigandi einstaklinga. — Sameignarsjóðirnir eru hins vegar sameign allra þeirra, sem í hverju fjelagi eru. Aðalsjereignarsjóður hvers fjelags er „stofnsjóður“, og innlög í hann skyldukvöð (sbr. 6. tölul. 3. gr.), og útborganir úr honum mjög takmarkaðar (sbr. 25. gr.). Stofnsjóðseign hvers fjelagsmanns er fyrst og fremst trygging fyrir viðskiftum eigandans, og er sjóðeigninni ætlað að vaxa, uns hún t. d. í vörukaupafjelagi nær að upphæð árskaupaþörf hlutaðeiganda (sbr. 3. málsgr. 25. gr.).

Þegar sjóðeignareigandinn lendir í skuldum, stendur sjóðeignin fyrir þeim, það sem hún nær, svo að til samábyrgðarinnar kemur ekki fyr en sjóðeignin er þrotin. Þar sem upphæð sjóðeignarinnar er takmörkuð að ofan við upphæð árlegrar úttektar, svo sem 3. málsgr. 25. gr. mælir fyrir um, verður sjóðurinn í aðra röndina nokkurskonar ellitryggingarsjóður, það er að segja það, sem umfram verður skuldtryggingu í hverju einstöku tilfelli. því að þeir menn, sem lengi hafa safnað í sjóðinn, en minka síðan verslunarviðskiftin eða hætta þeim, geta fengið eign sína útborgaða að nokkru eða öllu leyti.

Af öðrum sjereignarsjóðum vil jeg nefna innlánsdeildirnar, sem eru sparifje einstakra manna, fengið fjelögunum til ávöxtunar sem rekstrarfje.

Til sameignarsjóðanna heyra fyrst og fremst „varasjóður“, sem einkum á að standa straum af stærri sameiginlegum áföllum í verslunarrekstrinum, „skuldtryggingarsjóður“, sem er eins konar baktrygging fyrir skuldum einstakra manna og komið getur til kastanna, þegar stofnsjóðseign einstaklings hrekkur ekki, og í þriðja lagi „fasteignarsjóður“, eða það fje fjelaganna, sem á einn eða annan hátt er lagt í fasteignir. — Fje það, er rennur í sameignarsjóðina, er jafnan að mestu leyti tekið af sameiginlegum hagnaði (eða sparnaði) fjelaganna. — En það fje, sem rennur í sjereignarsjóðinn, er ýmist tekið beint úr reikningum fjelagsmanna eða af sameiginlegum hagnaði.

Í pöntunarfjelagi er t. d. stofnsjóðsgjaldið tekið beint úr reikningum fjelagsmanna, en í kaupfjelögum með ensku sniði er það tekið af sameiginlegum „brúttó“-hagnaði, sem uppbót á viðskifti fjelagsmanns, eins og annar einstaklingshagnaður, sem í þeim fjelögum kemur aðallega þannig fram. Þetta fje, sem rennur í stofnsjóðina, og annar sá hagnaður, sem einstöku menn fá útborgaðan af samvinnuverslun, álíta samvinnumenn yfirleitt, að ekki eigi að skattast öðruvísi en sem einstaklingseign, og er gengið inn á þá leið í frv. því um tekju- og eignarskatt, sem stjórnin hefir lagt fyrir þetta þing. — Um þá hlið málsins er því líkast, að ekki verði mikil deila í þinginu.

Um tekjur og eignir sameignarsjóðanna er nokkuð öðru máli að gegna. — Meiri hluti samvinnumanna mun líta svo á, að varasjóðir og skuldtryggingarsjóðir og þeirra tekjur eigi að vera skattfrjálsar, á líkan hátt og varasjóðir banka- og sparisjóða, og viðurkenna því aðeins skattskyldu á fasteignum fjelaganna. Á þeim skoðanagrundvelli eru bygð skattaákvæði frv. þess, sem hjer liggur fyrir, og fer brtt. nefndarinnar ekki út af honum. En þegar skattagrundvöllur samvinnufjelaganna er þannig takmarkaður, leiðir af því, að skattar þeir, sem á hann eru lagðir, verða að vera tiltölulega háir. Því er gengið inn á það af nefndinni og öðrum þeim, sem að frv. þessu standa, að hækka skatt þann af húsum, sem ráðgerður er í 28. gr. frv., úr 1% upp í 2%, sem að vísu er mjög hár skattur sem húsaskattur, en þó miklu hollari samvinnufjelögunum en þau handhófsgjöld til sveitar- og bæjarsjóða, sem fjelögin eiga nú við að búa. Mitt persónulega álit er það, að rjettara væri að færa nokkuð af þessum skatti á lóðirnar, þótt raunar kæmi í sama stað niður fyrir fjelögin, og mætti athuga það á síðari stigum málsins.

Aðalbreytingartillögur nefndarinnar við frv. eru því þær, að skattur þessi sje hækkaður og að gjöld til ríkissjóðs fari eftir almennum lögum, og í þriðja lagi, að það sjeu bráðabirgðaákvæði um gjaldskyldu samvinuufjelaga til bæjar- og sveitarsjóða, því að búist er við, að endurskoðun fari bráðlega fram um tekjustofna sjóða þessara.

Aðrar brtt. nefndarinnar má að mestu skoða sem orðabreytingar, að undanteknum e. og d. lið í brtt. við 25. gr. frv.

C.-liðurinn er í frv. orðaður þannig: „Við brottrekstur úr fjelaginu“. Þennan lið vill nefndin láta fella í burtu, því að ekki er laust við, að hann virðist gefa undir fótinn með að brjóta lög fjelagsins, og fá þannig útborgað. D.-liður brtt. er fólginn í því, að nefndin leggur til, að svohljóðandi nýr liður: „Við gjaldþrot hans“, komi á eftir b.-lið frv., og verði því c.-liður í 25. gr. frv.

Við 26. gr. frv. gerir nefndin þá breytingu, að á eftir orðunum: „til ávöxtunar“ komi: „sem rekstrarfje“, því að nefndin ætlast til, að það fje sje notað til starfrækslu fjelögunum, en ekki til útlána.

Þá leggur nefndin til, að 28. gr. frv. falli niður, en færir efni hennar aftur, og setur það fyrst í síðasta kafla.