18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1937 í B-deild Alþingistíðinda. (2070)

94. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Þorleifur Guðmundsson:

Jeg vil leiðrjetta það, sem háttv. frsm. minni hluta (P. O.) sagði um löggjöf Englendinga í þessu efni. Það kom til orða hjá þeim að lögleiða 4 klukkutíma svefn í sólarhring, en þeir hafa víst verið of vitrir til þess að halda sig við það, eftir því, sem háttv. frsm. (P. O.) lýsti þeim, því að úr því varð víst ekki neitt hjá þeirri vísu þjóð.

Háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) sagði, að það væri varhugavert að leiða þennan svefntíma í lög, og færði það til sönnunar, að oft bæri nauðsyn til að gera að aflanum án þess að mönnum kæmi dúr á auga, í einni striklotu. En jeg fæ nú ekki betur sjeð en að þeir 3/4, sem á dekki eiga að vera, ósyfjaðir og óþreyttir, mundu vera jafnfærir um það eins og þó þeir væru allir að því hálfsofandi. Það heyrist oft nú, að sjómönnum og verkamönnum farist eigi að gera háar kröfur nú, þegar allir atvinnuvegir sjeu í kaldakoli. En þetta hafði jeg einnig athugað, og varð þess vís, að það er ekki því að kenna, hvernig togaraútvegurinn er mi kominn, að þessir fiskimenn hafi ekki unnið nógu mikið, eða vakað nógu lengi, heldur mundi það vera frekar af því, að þær stjettir manna, sem lifa af þessum atvinnuvegi í landi, munu hafa unnið of lítið, en sofið of mikið.