06.05.1921
Efri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2340 í B-deild Alþingistíðinda. (2477)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Halldór Steinsson:

Aðeins örfá orð, til þess að svara háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.).

Hann vildi halda því fram, að þingið, og sjerstaklega peningamálanefndin, hefði orðið fyrir utanaðkomandi áhrifum og ljeti stjórnast af þeim. Þetta eru óviðeigandi ummæli, og leyfi jeg mjer því að vísa þessum aðdróttunum heim, bæði fyrir mína hönd og nefndarinnar. Það getur vel verið, að hann hafi fundið sjálfan sig veikan fyrir slíkum áhrifum, en það var ekki sæmilegt að vera að opinbera sig hjer, og því síður að drótta því að öðrum.

Háttv. þm. (B. K.) sagði, að það væri með hag bankans fyrir augum að ákveða seðlaútgáfurjettinn til svona langs tíma. En jeg vil nú spyrja: Er það að hafa hag bankans fyrir augum, að sleppa öllu, ef ekki verður af kaupunum?

Þá sagði og háttv. þingmaður, að það væri að setja bankann á höggstokkinn, að ákveða seðlaútgáfurjettinn aðeins til eins árs. Slíkt er tæplega hugsanlegt að geti átt sjer stað, þegar bankinn er orðinn innlend stofnun, að þingið fari þá að leggjast á sitt eigið afkvæmi, og hefi jeg aldrei heyrt jafnmiklu vantrausti lýst á þinginu, að halda að það fari að leggjast á sína eigin stofnun og eyðileggja hana. Jeg vona því, að hv. þm. G.-K. (B. K.) sje einn um þá skoðun.

Þá sagði þingmaðurinn, að peningamálanefndin hefði sofið í 7 vikur, og undantók þar engan. Þó hefir hann varla búið þetta frv. til sofandi. En raunar hefi jeg heyrt, að menn geti í dáleiðslu eða sofandi ástandi skrifað ýmislegt, og sje þetta frv. þannig til orðið, þá skal mig eigi undra, þó að á því sjeu ýmsir annmarkar.

En ef menn líta á brtt. okkar með opnum en ekki sofandi augum, þá hljóta allir að sjá, að þær miða að því að efla hag bankans, og landsins um leið.