19.05.1921
Neðri deild: 74. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2420 í B-deild Alþingistíðinda. (2554)

135. mál, heimild til lántöku fyrir ríkissjóð

Fjármálaráðherra (M. G.):

Mjer er ekki kunnugt um svo miklar framkvæmdir af hálfu háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), að hann hefði ekki getað komist yfir að athuga frv., sem borin eru fram í þinginu, og honum ferst helst að tala um illa undirbúin mál, sem ekki hefir nenningu í sjer til að koma með brtt., og segist jafnvel stundum verða að láta það bíða næsta þings(!!). (Gunn. S.: Það er hægt að segja alt þegar maður er dauður, en við eigum eflaust eftir að sjást!). Eigi harma jeg það og mun hvergi hopa, þótt þessi andlegi sveinstauli sæki að, því að hans vopn eru brothætt og sljó.