14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2468 í B-deild Alþingistíðinda. (2612)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Forsætisráðherra (J. M.):

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) spurðist fyrir um það, hvort útlendingum, sem stundað hafa síldveiði hjer við land undanfarið, mundi leyfast að halda atvinnunni áfram, ef frv. yrði samþykt. Þessu verður að svara neitandi. 2. gr. tekur þar af öll tvímæli eftir minni meiningu. En ef mönnum þykir mjög ósanngjarnt að meina þessum mönnum að stunda hjer atvinnu, þá getur þingið veitt stjórninni heimild til að veita undanþágu, hvað þeim viðvíkur. En þetta kemur ekki til, ef till. á þskj. 607 verður samþykt.

Jeg held, að háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) hafi lagt nokkuð mikið í dæmið, sem jeg tók af Svíum. Jeg sagði aðeins, að þeir hefðu horfið frá þessu ráði, en hitt veit jeg ekki, hvort þeir hafi verið til þess neyddir eða ekki.