15.02.1921
Sameinað þing: 1. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

Rannsókn kjörbréfa

Jón Þorláksson:

Það var háttv. þm. N.Þ. (B. Sv.), sem sagði, að í janúarmánuði hefðu verið teknir menn á kjörskrá, án kosningarrjettar. Þetta er ekki rjett. Þess var gætt mjög vandlega að taka ekki á kjörskrá aðra en þá, sem kosningarrjett áttu. Þau ummæli, sem háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hafði um þetta, tel jeg hann ekki geta staðið við. Það er talað um 1500 kærur, en það er enginn mælikvarði á það, hvort kjörskrá sje illa samin. En 670 voru teknir inn á kjörskrá, og það er sá rjetti mælikvarði. Hann sagði, að óslitinn straumur kjósenda hefði verið að öllum kjördeildum til kl. 11, og á því bygði hann það, að margir hefðu orðið frá að hverfa. En það var að eins í einni kjördeild óslitinn straumur til kl. 11, í hinum komu kjósendur dræmt frá kl. 8, og voru því lítil brögð að því, að menn yrðu frá að hverfa, án þess að geta kosið.