27.04.1921
Neðri deild: 56. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í C-deild Alþingistíðinda. (3271)

118. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka og ráðstafanir á gullforða bankans

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi lítið verið hjer við umr. og hefi heldur ekki ástæðu til að ræða málið verulega, því það tekur mest til hinna ráðherranna. Jeg vil aðeins segja nokkur orð út af þeim ummælum háttvirts flm. (Jak. M.), að stjórnin hafi haldið skýrslum fyrir nefndinni.

Það er alveg rjett, að hæstv. fjrh. (M. G.) hefir sagt, að hann hafi skilið svo ummæli eins af bankastjórum Privatbankans á fundi í Kaupmannahöfn í haust, að ef tækist að skipa málum Íslandsbanka til frambúðar, þá mundi Privatbankinn veita honum lán framvegis, eins og verið hefði. Á fundi, sem stjórnin hafði með hv. peningamálanefnd, sagði hæstv. fjrh. (M. G.) þetta sama og kvaðst ekki vita um neina breytingu á því, þegar um það var spurt. Jeg sagði það sama.

Hv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) spurði mig, að því er jeg held fyrir hönd meiri hl. nefndarinnar, hvort engar skýrslur hefðu komið til stjórnarráðsins, sem sýndu breytingu á þessu, Jeg sagðist ekki hafa orðið þess var, en sagðist skyldi athuga það. Síðan kom hv. flm. (Jak. M.) og spurði mig, fyrir hönd 4 manna í nefndinni, um það sama. Jeg gaf þegar þessum 4 mönnum — undirnefnd nokkurskonar innan peningamálanefndarinnar — kost á að sjá þær skýrslur, sem um gat verið að ræða.

Nú skildist mjer á hv. flm. (Jak. M.), að hann hafi þóst sjá eitthvað í þessum skjölum, sem bendi til þess, að eitthvað sje breytt af hendi Privatbankans. Helst mun hann hafa ráðið það af skjali nokkru, „memorandum“ frá tveim erlendum bankaráðsmönnum Íslandsbanka.

Jeg hafði ekki skilið þetta „memorandum“ svo, að í því feldist nokkuð um afstöðu Privatbankans til Íslandsbanka. Og sama skilning lagði Tofte bankastjóri í það. Samt skal jeg viðurkenna, að ef til vill hefði mátt lesa eitthvað út úr þessu skjali í þá átt, sem háttv. flm. (Jak. M.) virðist hafa gert. Til frekari fullvissu bað jeg Tofte bankastjóra að síma til þess bankaráðsmannsins, sem er aðalbankastjóri Privatbankans, Clausens, og spyrja, hvort nokkuð mætti ráða af þessu „memorandum“ um framtíðarviðskifti bankanna. Svaraði Clausen þessu skeyti svo, að þetta „memorandum“ snerti á engan hátt eða segði alls ekkert um afstöðu Privatbankans til Íslandsbanka.

Það er því hreinn misskilningur, að nokkrum skýrslum hafi verið haldið af stjórnarráðsins hálfu fyrir hv. nefnd, eða nokkrar skýrslur gefnar, er ekki voru fyllilega rjettar, og að því leyti sem ummæli Tofte bankastjóra um skilning á ummælum Clausens bankastjóra um lánveiting, koma ekki heim við orð ráðherrans, þá er mjer kunnugt um, að hann hefir í höndum sönnunargögn fyrir því, að maður, sem var við samtalið og háttv. flm. (Jak. M.) varla mun rengja, skyldi Clausen á sama hátt.

Skýrslur þær, sem háttv. flm. (Jak. M.) segir stjórnina hafa haldið fyrir nefndinni, eru til sýnis öllum hv. þm., er þess óska, í stjórnarráðinu.