18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

38. mál, verslun með tilbúinn áburð og kjarnfóður

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Hæstvirtur atvinnumálaráðh. (P. J.) hefir svarað hv. þm. Ísaf. (J. A. J.) og þarf jeg ekki miklu við að bæta. Jeg álít það ekki rjett að banna sölu á lifur til fóðurbætis, og þótt ákvæði gr. sjeu heldur ströng, fljótt á litið, getur seljandi altaf forsvarað sig, þótt gallar komi fram eftir á, sem ekki var á hans valdi að bæta úr. Jeg trúi háttv. þm. (J. A. J.), er hann lýsir breytingu þeirri, er á lifrinni verður um stórstraum, en ef menn taka það með í reikninginn, þegar selt er, ætti það ekki að koma í bága við ákvæði frv.

Nefndinni var ókunnugt um síldarkökur, þekti ekki annað en síldarmjöl, en sjálfsagt er að bæta síldarkökunum inn í, og er það auðgert. Það má setja þær aftan við 9. lið 2. gr.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) óttaðist að frv. yrði pappírslög. Jeg drap á, að svo mundi líklega verða fyrst í stað, en síðar meir ættu þau að geta komið fyllilega til framkvæmda, en nú er það erfitt eða ómögulegt.

Viðvíkjandi hinu atriðinu, sem háttv. þm. (J. Þ.) drap á, um söluna, skal jeg geta þess, að jeg hefi litið svo á, og jeg held, að nefndin sje mjer sammála, að frv. nái til allrar sölu, en ekki að eins til þeirrar, sem kaupmenn reka. Háttv. þm. (J. Þ.) mintist á minstu seljendurna, þá er safna síld um síldartímann í fáein föt, og selja síðan, og vildi hann ekki, að ákvæðið næði til þeirra. Jeg held, að það sje engu síður nauðsynlegt, því einmitt við þessa sölu hafa komið fram mikil svik. Menn hafa kastað í þessi föt allskonar rusli, og selt síðan bændum sem góða vöru. Það er þess vegna nauðsynlegt, að ákvæði nái til þessa. Um flokkun síldar er það að segja, að til mun að eins 1 flokkur, útflutningssíld, og yrði þá sú síld, sem ekki er útflutningssíld, í 2. flokki.

Jeg gleymdi að geta þess áðan, að nefndin ætlast til að lögin verði prentuð í nokkrum eintökum og send ókeypis um landið. Það vill farast fyrir, að hreppstjórar lýsi á hreppskilaþingum öllum þeim lögum, sem almenning varða, en það er nauðsynlegt, að menn hafi fulla þekkingu á þeim, og að nokkur eintök sjeu til í hverri sveit.